Fluttur í eitt alræmdasta fangelsi Bretlands

Benjamin Mendy gekk til liðs við Manchester City sumarið 2017.
Benjamin Mendy gekk til liðs við Manchester City sumarið 2017. AFP

Benjamin Mendy, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, var á dögunum fluttur í Strangeways-fangelsið í Manchester. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Bakvörðurinn er ákærður fyrir sjö nauðganir gegn fimm konum og þá hefur hann einnig verið ákærður fyrir kynferðisofbeldi.

Brotin áttu sér stað á tíu mánaða tímabili, frá október 2020 fram í ágúst 2021, en hann var handtekinn í ágúst á síðasta ári.

Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Altcourse-fangelsinu í Liverpool en var fluttur í Strangeways-fangelsið á Þorláksmessu þar sem óttast var um öryggi hans í Alcourse-fangelsinu.

Brot Mendys verða tekin fyrir á föstudaginn kemur þar sem jafnframt verður ákveðið hvort gæsluvarðhald yfir honum verði framlengt eða hann verði látinn laus gegn tryggingu.

Undirbúningur réttarhalda yfir honum fara fram 24. janúar og réttarhöldin munu svo hefjast næsta sumar.

Mendy gekk til liðs við Manchester City frá Mónakó fyrir 52 milljónir punda sumarið 2017 en hann á að baki 75 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert