Haas ræður Magnussen

Kevin Magnussen fer frá Renault til Haas á næsta ári.
Kevin Magnussen fer frá Renault til Haas á næsta ári. AFP

Haasliðið bandaríska tilkynnti formlega rétt í þessu að það hefði ráðið Danann Kevin Magnussen sem ökumann á næsta ári.

Segir í tilkynningu frá Haas, að samningur Magnussen gildi til nokkurra ára, án þess að það sé tilgreint nánar. Mun hann keppa við hlið franska ökumannsins Romain Grosjean.

Magnussen þreytti frumraun sína hjá McLaren árið 2014 og komst á verðlaunapall í sínu allra fyrsta móti. Árið eftir, 2015, vék hann fyrir Fernando Alonso og tók í staðinn við starfi þróunar- og varaökumanns.

Í fyrra var Stoffel Vandoorne tekinn fram yfir Magnussen og þar með voru dagar hans hjá McLaren taldir. Hljóp á snærið hjá honum er Renault yfirtók Lotus og bauð honum starf, sem frátekið var fyrir Pastor Maldonado. Sá gat þó ekki staðið við samninga þegar á reyndi vegna brotthlaups styrktaraðila og var þá Magnussen kallaður til.

Magnussen hefur skorað stig í tveimur mótum í ár, í Rússlandi og Singapúr.

Þeir verða liðsfélagar á næsta ári hjá Haas, Kevin Magnussen …
Þeir verða liðsfélagar á næsta ári hjá Haas, Kevin Magnussen (t.v.) og Romain Grosjean. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert