Courtois til Real Madrid

Thibaut Courtois er orðinn leikmaður Real Madrid á Spáni.
Thibaut Courtois er orðinn leikmaður Real Madrid á Spáni. AFP

Markmaðurinn stóri og stæðilegi, Thibaut Courtois, er genginn til liðs við spænska knattspyrnufélagið Real Madrid en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Courtois kemur til Real Madrid frá Chelsea á Englandi og skrifar hann undir sex ára samning við spænska stórliðið. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en það er talið vera í kringum 35 milljónir punda.

Samningur Courtois við Chelsea átti að renna út næsta sumar en hann greindi forráðamönnum enska félagsins frá því í byrjun sumars að hann ætlaði sér ekki að framlengja samning sinn við félagið. Chelsea ákvað því að selja hann í sumar, á meðan þeir gátu fengið eitthvað fyrir hann. Courtois kom til Chelsea árið 2011 en var á láni hjá Atlético Madrid á Spáni á árunum 2011 til 2014.

Enska liðið keypti Kepa Arrizabalaga af Athletic Bilbao í gær fyrir 71,6 milljónir punda og er Kepa því orðinn dýrasti markmaður heims en honum er ætlað að fylla skarðið sem Courtois skilur eftir sig. Courtois var valinn besti markmaður heimsmeistaramótsins í Rússlandi í sumar en hann hefur unnið ensku úrvalsdeildina í tvígang með Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert