Rakel skoraði í fimmta leiknum í röð

Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allar íslensku landsliðskonurnar í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eru í eldlínunni í dag þar sem slagur Íslendingaliða var meðal annars á dagskrá.

Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, mætti þá Limhamn Bunkeflo í markaleik þar sem Kristianstad vann 4:2. Rakel Hönnudóttir skoraði þó fyrsta mark leiksins fyrir Limhamn áður en Kristianstad sneri blaðinu við, en þetta var fimmti leikurinn í röð þar sem Rakel skorar. Í þessum leikjum hefur hún skorað sjö mörk.

Rakel spilaði allan leikinn fyrir Limhamn eins og Anna Björk Kristjánsdóttir. Þá spilaði Sif Atladóttir allan leikinn fyrir Kristianstad, sem er með 38 stig í fjórða sæti deildarinnar. Limhamn er hins vegar í harðri fallbaráttu með 20 stig í næstneðsta sæti.

Rakel og Anna Björk mega þó þakka Djurgården fyrir að vinna Vittsjö 2:0, því Limhamn og Vittsjö eru þar með enn með jafnmörg stig í 10. og 11. sæti. Guðbjörg Gunnarsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir spiluðu báðar allan leikinn fyrir Djurgården, sem er með 26 stig í 7.-8. sæti deildarinnar.

Þá er Glódís Perla Viggósdóttir í byrjunarliði Rosengård sem er 2:0 yfir í hálfleik gegn Hammarby. Rosengård er í öðru sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Piteå, en minnkar forskotið í þrjú stig með sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert