Mikið breytt lið og önnur leikaðferð gegn Íslandi?

Edoardo Reja þjálfari albanska landsliðsins.
Edoardo Reja þjálfari albanska landsliðsins. AFP

Ítalinn Edorado Reja sem tók við albanska landsliðinu í marsmánuði, eftir fyrstu tvo leiki þess í undankeppni Evrópumótsins, verður líklega með mikið breytt lið gegn Íslandi á þriðjudagskvöldið, miðað við það lið sem hann stillti upp í 1:0-ósigrinum á Laugardalsvellinum 8. júní.

Þremur dögum eftir hann vann Albanía sigur á Moldóvu, 2:0, í Elbasan og þá hafði Reja gert fimm breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum í Laugardal, ásamt því að skipta yfir í leikaðferðina 5-3-2.

Reja hélt sig við sömu leikaðferð gegn Frökkum á laugardagskvöldið, þar sem lið hans tapaði 4:1, en þá hafði hann gert fjórar breytingar frá leiknum við Moldóva. Alls voru sjö leikmenn í byrjunarliðinu gegn Frökkum sem léku ekki á Íslandi í júní.

Í millitíðinni ákvað reyndur miðjumaður, Migjen Basha, leikmaður Aris í Grikklandi, að binda enda á landsliðsferilinn en hann lék sem varnartengiliður á Laugardalsvelli.

Sadiku spilaði frekar með Málaga

Framherjinn Armando Sadiku, sem hefur skorað 12 mörk í 37 landsleikjum, er fjórði markahæsti landsliðsmaður Albana frá upphafi og skoraði sigurmarkið þegar þeir sigruðu Rúmena 1:0 á EM í Frakklandi fyrir þremur árum, er ekki með í þessum landsleikjum. Hann var um mánaðamótin lánaður frá spænska liðinu Levante til Málaga í spænsku B-deildinni og hann spilaði deildaleik með Málaga á laugardaginn, á sama tíma og landsliðið lék í Frakklandi.

Jonathan Ikone leikur á Mërgim Mavraj fyrirliða Albaníu í leiknum …
Jonathan Ikone leikur á Mërgim Mavraj fyrirliða Albaníu í leiknum á Stade de France í gærkvöld. AFP

Fyrirliðinn Mëgram Mavraj er einn þeirra sem ekki spiluðu fyrri leikinn gegn Íslandi í sumar en er nú með liðinu. Hann fékk reyndar heldur betur slæma umsögn hjá France Football eftir leikinn í Frakklandi á laugardagskvöldið. France Football gaf honum lægstu einkunn allra á vellinum, 3, og sagði að hann hefði verið klaufalegur og í tómum vandræðum allan leikinn, og myndi eflaust ekki gleyma þessum leik í bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert