Benzema vill spila fyrir annað landslið

Landsliðsferill Karim Benzema hjá Frökkum er á enda.
Landsliðsferill Karim Benzema hjá Frökkum er á enda. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Karim Benzema er búinn að fá nóg af stöðu sinni hjá landsliði þjóðarinnar og vill hann fá að spila fyrir annað landslið. Báðir foreldrar Benzema eru frá Alsír. 

Benzema fékk bann frá franska landsliðinu í desember 2015 er hann reyndi að kúga Mathieu Valbuena vegna kynlífsmyndbands. Noel Le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, tjáði sig um málið á dögunum og sagði að Benzema myndi aldrei spila fyrir franska liðið á ný. 

Benzema svaraði á Twitter: „Ef þú heldur að ég sé búinn, leyfðu mér þá að spila fyrir aðra þjóð sem ég er löglegur hjá og við sjáum til,“ skrifaði Frakkinn. 

Framherjinn fékk tækifæri til að spila fyrir Alsír er hann var ungur að árum, en hafnaði því til að spila með Frökkum. Þar sem hann hefur spilað keppnisleiki fyrir Frakkland, verður afar erfitt að fá að spila keppnisleiki fyrir Afríkuþjóðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert