Sjö frá Barcelona smituðust af veirunni

Leikmenn Barcelona eru mættir aftur til æfinga.
Leikmenn Barcelona eru mættir aftur til æfinga. AFP

Fimm leikmenn knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni greindust með kórónuveiruna í byrjun mars en það er katalónska útvarpsstöðin RAC1 sem greindi frá þessu. Þá smituðust einnig tveir starfsmenn félagsins af veirunni en allir þeir sem smituðust af veirunni innan félagsins voru sendir strax í einangrun.

Þeir hafa nú náð sér að fullu og eru byrjaðir að æfa með aðalliði félagsins en Spánverjar stefna á að hefja leik að nýju 20. júní eftir rúmlega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Alls eru ellefu umferðir eftir af tímabilinu á Spáni í spænsku 1. deildinni en Barcelona er með 58 stig á toppi deildarinnar.

Real Madrid er í öðru sæti deildarinnar með 56 stig og Sevilla kemur þar á eftir með 47 stig. Barcelona hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum en félagið hefur verið tekjulaust undanfarna mánuði og þurfti allir þeir sem starfa hjá félaginu, í öllum íþróttagreinum, að taka á sig 70% launalækkun vegna efnahagsáhrifa faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert