„Grét því mér fannst ég bjargarlaus“

Sir Alex Ferguson er einn sigursælasti knattspyrnustjóri sögunnar.
Sir Alex Ferguson er einn sigursælasti knattspyrnustjóri sögunnar. AFP

Heimildarmyndin Sir Alex Ferguson: Never Give In var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Glasgow í gær. Í myndinni ræðir Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Manchester United, á opinskáan og einlægan hátt um heilablóðfallið sem hann fékk í maí árið 2018.

Eftir að hafa fallið við á heimili sínu vegna heilablæðingar var honum hraðað á spítalann í Salford. Taugalæknirinn Joshi George, sem var einn þeirra sem meðhöndlaði Ferguson á spítalanum, segir í myndinni að það hafi verið 80 prósent líkur á því að Ferguson myndi ekki lifa af.

„Þetta var fallegur dagur, ég man það. Ég velti því fyrir mér hversu marga sólríka daga ég myndi upplifa til viðbótar. Mér fannst það erfitt,“ segir Ferguson í myndinni og bætir því að hann viti það vel að hann hafi verið heppinn að lifa af.

Ferguson rifjar upp hvernig hann varð alveg raddlaus þegar hann lá á spítalanum í Salford eftir að hafa farið of hratt af stað og fengið of marga í heimsókn til sín. „Ég var að reyna að þvinga röddina fram en ég gat það ekki. Einn læknanna kom inn til mín og ég grét því mér fannst ég bjargarlaus.“

Ferguson vann í að endurheimta röddina sína með raddþjálfa og náði því eftir 10 daga. Hann hafði einnig miklar áhyggjur af því að missa minni sitt.

„Ég hefði hatað það að missa minnið. Það hefði verið hræðileg byrði á fjölskyldu minni ef ég væri sitjandi á heimili mínu án þess að vita hver ég væri.

Tveir læknar komu inn til mín og sögðu: „Skrifaðu nöfn ættingja þinna, nöfn knattspyrnufélaga þinna og nöfn leikmanna þinna.“ Ég skrifaði og skrifaði,“ segir Ferguson.

Þegar kom að því taka upp efni fyrir heimildarmyndina, sem Jason sonur hans leikstýrir, segir Sir Alex að ómögulegt hafi verið að lesa á þessa minnismiða sem hann hafi skrifað í því skyni að reyna að halda í minni sitt.

„Maður vill ekki deyja“

Ferguson segir í myndinni að þegar hann kom heim af spítalanum hafi hann haldið öllum tilfinningum sínum út af fyrir sig, djúpt innra með sér, en svo hafi hann ekki ráðið við þær þegar þær brutust út.

„Það fór að opnast fyrir allt og tilfinningarnar fóru að brjótast út. Maður fer að velta því fyrir sér hvað gerist þegar maður deyr.

Ég man ekkert. Þegar ég hrundi í gólfið þennan laugardagsmorgun veit ég ekkert hvað gerðist. Fólk segir mér að ég hafi setið uppi og verið að ræða málin á spítalanum í Macclesfield áður en ég fór á spítalann í Salford en ég man ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég er ekki viss um, þegar kemur að því að maður fellur frá, hvort sé best að fara þannig [án þess að muna neitt].“

Hann segist hafa óttast það að deyja. „Þegar maður er einn þá gerir ótti og einmanaleiki vart við sig, þessar hugsanir læðast að manni. Maður vill ekki deyja. Það er staðurinn sem ég var á. Þessir hlutir fóru talsvert mikið í gegnum hugann,“ segir Ferguson í heimildarmyndinni, sem er væntanleg á Amazon Prime-streymisveituna í lok maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert