Hjartnæm ástæða að baki fagni Þorleifs

Þorleifur Úlfarsson (t.h.) í leik með Breiðabliki síðastliðið sumar.
Þorleifur Úlfarsson (t.h.) í leik með Breiðabliki síðastliðið sumar. Ljósmynd/Jón Helgi Pálmason

Knattspyrnumaðurinn Þorleifur Úlfarsson, leikmaður Houston Dynamo í bandarísku atvinnumannadeildinni, MLS, skoraði sitt fyrsta mark sem atvinnumaður aðfaranótt mánudags og tileinkaði látinni ömmu sinni markið.

Markið glæsilega skoraði Þorleifur, sem er 21 árs, í 3:0-útisigri á LA Galaxy og í kjölfarið reif hann sig úr keppnistreyjunni þar sem stóð á undirtreyju hans: „Fyrir ömmu Siggu.“

Á instagramaðgangi sínum í gærkvöldi greindi Þorleifur nánar frá hvaða þýðingu amma hans, Sigríður Svanhildur Magnúsdóttir Snæland, sem féll frá eftir baráttu við krabbamein árið 2015, hefði haft fyrir hann og gerir enn.

„Þegar ég var sex ára gamall sagði ég ömmu minni að ég myndi verða atvinnumaður í knattspyrnu þegar ég yrði eldri og að ég myndi hugsa um hana. Hún var besti vinur minn og sömuleiðis fallegasta og góðhjartaðasta manneskja í heiminum, ég skildi aldrei hvernig ég gæti átt það skilið að hafa hana í lífi mínu.

Það hafði alltaf verið draumur minn að verða atvinnumaður en ég gaf í raun og veru aldrei allt sem ég átti til þess að láta þann draum rætast, það var bara eitthvað sem ég sagði henni því mér þótti vænt um hana.

Þann 16. apríl 2015 fékk ég að halda í höndina á henni og kveðja hana þegar hún varði síðasta degi sínum í að berjast við krabbamein. Allt frá þeim degi hef ég helgað líf mitt því að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Ég veit að þú ert að fylgjast með af himnum ofan og ég vona að þú sért stolt af mér. Fyrir þig, amma Sigga,“ skrifaði Þorleifur.

Hann fór óhefðbundna leið í átt að atvinnumennskunni þar sem hann var valinn fjórði í nýliðavali MLS-deildarinnar eftir að hafa staðið sig frábærlega með knattspyrnuliði Duke-háskólans vestanhafs.

Áður hafði hann aðeins leikið einn leik í efstu deild hér á landi, fyrir Breiðablik síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert