Stundum ekki nóg að spila vel

Pistoia Massimo þjálfari HK.
Pistoia Massimo þjálfari HK. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Pistoia Massimo, þjálfari karlaliðs HK í blaki, kom í stutt spjall við mbl.is eftir að KA hafði unnið lið hans 3:1 í fyrsta leik úrslitakeppninnar. KA vann tvær fyrstu hrinurnar en HK þá þriðju. Kópavogsliðið var svo með fjórðu hrinuna í sinum höndum lengi vel en tapaði henni eftir mikinn viðsnúning.

„Það er lítið við þessu að segja. Ég bjóst við hörkurimmu eins og ætíð þegar við spilum gegn KA. Þeir tóku nokkrar rispur í lokahrinunni þar sem við vorum í vandræðum með móttöku. Það fór eiginlega með okkur en annars vorum við heilt yfir að spila vel. Þeir komust á bragðið og þá er erfitt að stoppa þá. Ég hrósa liðinu mínu því það spilaði vel og reyndi að vinna. Stundum er það ekki nóg.

Leikmennirnir eru góðir og fylgja eftir því sem ég legg fyrir í leikfléttum og skipulagi. Mér finnst bara vanta örlítið meira hungur í mannskapinn. HK er búið að vinna titilinn nokkur ár í röð en það þarf alltaf að berjast fyrir því að vinna næsta titil. Ég vil sjá meira hungur í næsta leik á okkar heimavelli,“ sagði Ítalinn geðþekki eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert