Afgreiðslukona sagði fyrst frá stærsta samningi sögunnar

Patrick Mahomes
Patrick Mahomes AFP

Leikstjórnandinn Patrick Mahomes, sem varð NFL-meistari með Kansas City Chiefs í febrúar, hefur skrifað undir stærsta og verðmætasta samning íþróttasögunnar en það var afgreiðslustúlka í áfengisverslun sem var fyrst með fréttirnar.

Þeir fyrstu til að frétta af ofursamningnum voru örfáir Twitter-fylgjendur Katie Camlin sem starfar sem afgreiðslustúlka í áfengisverslun í Kansas. Hún birti færslu í gær og sagði frá því að starfsmaður félagsins hafi mætt og keypt sex flöskur af rándýru kampavíni til að fagna stórum samning. Camlin lagði saman tvo og tvo og spáði því að Mahomes væri að skrifa undir nýjan samning. Einhverjum klukkutímum síðar bárust fréttirnar til fjölmiðla í Bandaríkjunum sem fóru þá fyrst að segja frá.

Mahomes dvaldi um hríð á Íslandi árið 2017 þegar kærasta hans Brittany Matthews spilaði með Aftureldingu/Fram í 2. deild kvenna í knattspyrnu. Þremur árum síðar leiddi hann lið Kansas að sínum fyrsta meistaratitli í Ofurskálaleiknum. Að verðlaunum fékk hann nýjan tíu ára samning við Kansas sem er metinn á 500 milljónir dollara eða 69 milljarða íslenskra króna. Hnefaleikakappinn Floyd Mayweather átti metið en hann fékk 450 milljónir dollara fyrir samning við sjónvarpsstöðina Showtime árið 2013.

Tíst Katie Camlin sem sagði fyrst frá samningi Mahomes.
Tíst Katie Camlin sem sagði fyrst frá samningi Mahomes. Skjáskot af Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert