„Skildi eftir þó nokkur kíló á pallinum“

Viktor Samúelsson lyfti 792,5 kg í samanlögðu í dag og …
Viktor Samúelsson lyfti 792,5 kg í samanlögðu í dag og reyndi við bætingar í öllum þriðju lyftum en stáldísirnar vildu ekki brosa við honum nema út í annað. Ljóst er þó að Viktor á góðar þyngdir inni enda náði hann frábærum árangri í fyrra. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður hafnaði í 12. sæti af 18 keppendum í -105 kg flokki á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Sun City í Suður-Afríku nú rétt í þessu en Viktor tók á stönginni um hádegisbil í dag að íslenskum tíma.

Viktor hlaut nafnbótina kraftlyftingamaður ársins í fyrra og á langan keppnisferil að baki, keppti í dag á sínu öðru heimsmeistaramóti og náði góðum árangri í fyrra, 6. sæti á hvoru tveggja, heims- og Evrópumeistaramótinu.

Viktor lyfti 282,5 kg í hnébeygju í dag og reyndi við 292,5, hlass sem ekki vildi upp í þetta sinnið. Sótti hann þar að sínu eigin Íslandsmeti í greininni, 290 kg, en missti jafnvægið þegar hann stillti upp fyrir beygjuna. Í bekkpressu lyfti hann 195 kg en Viktor á 200 kg í bekk og fór í þá þyngd á mótinu. Varð honum þá á að lyfta bakhlutanum örlítið frá bekknum sem er ógildingarsök og fékk ógilda lyftu með atkvæði tveggja dómara gegn einum.

Reyndi við bætingar í öllum þriðju lyftum

Ótrauður lét Viktor þá vaða í 315 kg í réttstöðulyftu sem flugu upp og færði sig því næst upp í 330, tilraun til Íslandsmets, sem fóru hálfa leið, 792,5 kg þar með í samanlögðu er upp var staðið. Keppnisandinn er ríkur í Viktori og var góður hugur í honum í samtali við mbl.is.

Viktor með 330 kg á stönginni í réttstöðulyftunni sem fóru …
Viktor með 330 kg á stönginni í réttstöðulyftunni sem fóru hálfa leið en 315 lyfti hann af festu og öryggi. Ljósmynd/Alexander Örn Kárason

Mér fannst ég vera sterkur í dag, en í svona sterkum flokki vissi ég að ég þyrfti að eiga mjög góðan dag í dag,“ segir Viktor. „Ég reyndi þess vegna við bætingar í öllum þriðju lyftum en það gekk ekki í dag og ég skildi eftir þó nokkur kíló á pallinum sem ég sæki aftur um leið og ég kemst á pallinn aftur.“ Það er ekki flóknara.

Senn líður að lokum heimsmeistaramótsins í Suður-Afríku þar sem sex af sjö íslenskum kempum hafa náð ágætum árangri síðustu daga, fellt fjölda Íslandsmeta auk þess sem sami keppandinn, Lucie Stefanikova, nældi í Evrópumet í hálfan dag og endaði með bronspening um hálsinn í gær.

Borgfirðingurinn og Bandaríkjamaðurinn

Óhætt er að segja að stálin stinn mætist á morgun þegar hin borgfirska Kristín Þórhallsdóttir, Evrópumeistari í samanlögðu og hverri grein fyrir sig, stígur á stokk í -84 kg flokki en hún er skráð með næstbesta árangurinn í flokknum á eftir sjálfum heimsmeistaranum, Bandaríkjamanninum Amöndu Lawrence, en þess má geta til gamans að Lawrence er einnig þjálfari Kristínar svo þar munu meistarinn og lærlingurinn heyja hildina undir vökulu auga mbl.is.

Kristín Þórhallsdóttir lyftir 220 kg í beygju á EM í …
Kristín Þórhallsdóttir lyftir 220 kg í beygju á EM í Vä­sterås í Svíþjóð í desember þar sem allt lék hreinlega í höndum dýralæknisins öfluga úr Borgarfirði. Varð Kristín þar Evrópumeistari í öllum þremur greinunum auk samanlagðs árangurs, fullt hús eins og það kallast. Ljósmynd/EPF/Kraftlyftingasamband Evrópu

Við sláum svo botninn í HM um helgina með spjalli við tvo úr fylgdarliðinu, þá Auðun Jónsson, landsliðsþjálfara og íþróttastjóra Kraftlyftingasambands Íslands, sem mörgum mun betur kunnur undir viðurnefninu Kópavogströllið, og Hinrik Pálsson, varaformann sambandsins og aðstoðarþjálfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert