Ólýsanleg tilfinning

Íslenska liðið framkvæmdi vel heppnaðar æfingar á dýnu.
Íslenska liðið framkvæmdi vel heppnaðar æfingar á dýnu. Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

„Mér líður mjög vel. Það eru margar tilfinningar eins og gleði og spenna. Það var smá stress í byrjun en það er allt farið,“ sagði Björn Helgi Devine, fyrirliði drengjalandsliðs Íslands í hópfimleikum, í samtali við mbl.is.

Liðið keppti í undanúrslitum Evrópumótsins í Lúxemborg í gær og mótið var það stærsta sem liðið hefur tekið þátt í til þessa.„Það var sturlað, ótrúlega skemmtilegt og hreinlega ólýsanleg tilfinning,“ sagði hann.

Bestu æfingar íslenska liðsins í gær voru á dýnu og var Björn ánægður með hvernig gekk þar. „Ég var mjög sáttur við hvernig við framkvæmdum stökkin þar og hvernig við lentum,“ sagði hann. Ísland var í fimmta sæti af fimm liðum, en hin liðin eru töluvert eldri og reynslumeiri. „Við þurfum alltaf að vera jákvæðir og bjartsýnir. Þetta er allt reynsla og við lærum af þessu.“

Ísland keppir aftur á morgun í úrslitum og fá strákarnir þá annað tækifæri til að skína. „Við ætlum að njóta þess að vera hérna og gera okkar besta. Við ætlum að leggja okkur alla fram og þá eigum við að vera sáttir við sjálfa okkur,“ sagði Björn Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert