„Held að Guðmundur verði næsti landsliðsþjálfari“

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. AFP

„Ég held að Guðmundur Guðmundsson verði næsti landsliðsþjálfari. Ég er búinn að tala við bæði Guðmund og Geir og þeir gefa ekki neitt upp. Ég veit ekkert meira en komið hefur fram í fjölmiðlum,“ sagði Dagur Sigurðsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta og núverandi landsliðsþjálfari Japan, í þættinum Seinni bylgjan á Stöð 2 sport í gærkvöld.

Samningur Geirs Sveinssonar við HSÍ rann út eftir Evrópumótið í Króatíu og hefur ekki verið tekin nein ákvörðun hjá stjórn HSÍ hvort hann verði endurráðinn eða annar þjálfari taki við þjálfun landsliðsins.

„Mér sýnist að menn séu að gefa sér tíma til þess að klára Guðmund og það kæmi mér ekki á óvart ef það væri búið að því. Það er mín tilfinning,“ sagði Dagur.

Guðmundur þjálfaði íslenska landsliðið frá 2001 til 2004 og aftur 2008 til 2012. Undir hans stjórn unnu Íslendingar til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert