Ánægður með stig í geggjuðum leik

ÍR-ingurinn Kristján Orri Jóhannsson freistar þess að skora framhjá Arnóri …
ÍR-ingurinn Kristján Orri Jóhannsson freistar þess að skora framhjá Arnóri Frey Stefánssyni markverði Aftureldingar. Kristján Orri skoraði 4 mörk í leiknum. mbl.is/Hari

„Þetta var bara geggjaður leikur. Mikill hraði og margir leikmenn sem léku vel,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, ánægur með leik sinn manna þegar þeir gerðu jafntefli við Aftureldingu, 31:31, í tíundu umferð Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. ÍR-ingar eru þriðja sæti deildarinnar með 13 stig, tveimur stigum á eftir Aftureldingu sem er í öðru sæti og þremur á eftir Haukum sem eru þessa stundina að glíma við Fjölni.

„Við lékum lengst af vel, ekki síst í seinni hluta fyrri hálfleiks og nær allan síðari hálfleikinn. Það var rétt á upphafsmínútum síðari hálfleiks sem við vorum ekki nógu góðir. Þá tók ég leikhlé og ræddi við strákana sem sneru við blaðinu og léku frábærlega eftir það til leiksloka,“ sagði Bjarni.

„Afturelding er með frábært lið sem hefur leikið afar vel það sem af er keppnistímabilsins. Besta liðið að mínu mati. Þar af leiðandi er ég ánægður með frammistöðu míns liðs. Það var gaman að máta sig við Aftureldingarliðið og standast þeim snúning. Aftureldingarliðið hefur verið þekkt fyrir að vinna leiki sína á síðustu stundu. Þess vegna verð ég að hrósa mínu liði fyrir að standast álagið undir lokin þegar Afturelding freistaði þess að skora sigurmarkið á síðustu mínútunni,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert