HM í hættu hjá Bendtner

Nicklas Bendtner.
Nicklas Bendtner. AFP

Danski landsliðsmaðurinn Nicklas Bendtner sem leikur með norska meistaraliðinu Rosenborg á það á hættu að missa af HM vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik með liði sínu í gær.

Bendtner þurfti að fara af velli eftir að hafa meiðst á læri. Åge Hareide landsliðsþjálfari Dana lét hafa eftir sér í dag að aðeins þeir leikmenn sem væru heilir heilsu færu til Rússlands.

„Ef að leikmaður er meiddur á þeim tíma sem við förum á HM þá fer hann ekki með til Rússlands. Það er aldrei gott að berjast við klukkuna. Við höfum ekki mikinn tíma,“ sagði Hareide á fréttamannafundi í dag.

Bendnter gat ekki leynt vonbrigðum sínum þegar hann haltraði af velli 20 mínútum fyrir leikslok í tapi Rosenborg gegn Brann í gær. Tár sáumst á hvarmi framherjans en Bendtner, sem er 30 ára gamall og er fyrrum leikmaður Arsenal, Juventus og Wolfsburg, á að baki 79 leiki með danska landsliðinu og hefur í þeim skorað 30 mörk.

Danir leika í C-riðli á HM ásamt Perúmönnum, Áströlum og Frökkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert