Þrenna Messi í síðasta heimaleiknum

Lionel Messi var brosmildur í nótt.
Lionel Messi var brosmildur í nótt. AFP

Í síðasta leik Argentínumanna á heimavelli áður en þeir mæta Íslandi eftir rúmlega hálfan mánuð tók Lionel Messi upp á því að skora þrennu. Argentína lagði Haítí örugglega að velli í nótt 4:0. 

Messi skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins á 17., 58. og 66. mínútu en eitt þeirra kom úr vítaspyrnu. Sergio Agüero bætti fjórða markinu við á 69. mínútu en leikið var í Buenos Aires. 

Argentína og Ísland mætast í Moskvu í fyrsta leik liðanna á HM hinn 16. júní en Argentínumenn ljúka undirbúningi sínum með vináttulandsleik gegn Ísrael í Tel Aviv laugardaginn 9. júní.

Panama, sem margir eru spenntir að sjá á HM, gerði markalaust jafntefli við Norður-Íra. Þá spilaði Perú einnig í nótt og vann Skotland 2:0 en Perú sigraði Ísland 3:1 í Bandaríkjunum í vetur. Christian Cueva og Jefferson Farfán skoruðu mörk Perúbúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert