Þurfum að vera 110% og ekkert kjaftæði

Jóhann Berg Guðmundsson var öflugur í íslenska liðinu í kvöld …
Jóhann Berg Guðmundsson var öflugur í íslenska liðinu í kvöld og lagði upp fyrsta mark leiksins. mbl.is/Eggert

„Það er mjög svekkjandi að ná ekki að halda þetta út, sérstaklega eftir að við komumst 2:0 yfir en svona er þetta stundum. Ef við spilum á HM eins og við gerðum í fyrri hálfleik þá hef ég engar áhyggjur af þessu,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, sóknarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Gana í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég sagði það eftir síðasta leik að Gylfi er gríðarlega mikilvægur fyrir þetta lið. Hann er leikmaður sem tengir spilið mjög vel saman og hann er lykilmaður í okkar liði. Mér fannst fyrri hálfleikurinn hér í kvöld mjög góður og hann er eitthvað sem við getum byggt á. Við þurfum að vera 110% og ekkert kjaftæði og ef við gerum það þá hef ég engar áhyggjur af okkur í Rússlandi.

Jóhann er orðinn spenntur að fara til Rússlands en liðið flýgur út á laugardaginn næsta.

„Það verða rólegheit með fjölskyldunni á morgun. Við förum út á laugardaginn og nú byrjar spennan að magnast hjá okkur. Það eru spennandi tímar framundan,“ sagði Jóhann léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert