Þá fyrst er eitthvað að

Kjartan Atli Kjartansson ræðir við sína menn gegn Keflavík.
Kjartan Atli Kjartansson ræðir við sína menn gegn Keflavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftaness var svekktur með naumt tap gegn Keflavík á Íslandsmótinu í körfubolta í kvöld. Spurður út í muninn á spilamennsku liðsins i kvöld samanborið við sigurleikinn á Álftanesi í síðasta leik sagði Kjartan þetta:

„Þeir hittu betur í dag en í leiknum á Álftanesi. Við náðum ekki að keyra eins mikið inn í sóknarfráköstin núna og þá og orkustigið hjá þeim var hærra í kvöld eins og vill oft verða þegar lið koma inn í leiki eftir tap í leiknum á undan."

Hvað er það sem ræður úrslitum í kvöld?

„Þetta var hörkuleikur og hann ræðst í raun bara af stórum körfum í fjórða leikhluta og þú kemst í raun ekkert nær því þegar þú tapar."

Getur verið að reynslan hafi orðið ykkur að falli í kvöld í ljósi þess að spennustigið var gríðarlegt og allt jafnt þegar fjórði leikhlutinn byrjaði?

„Nei ég er nú ekki á því. Oft er það þannig að heimaliðið þekkir körfurnar betur á sínum heimavelli en við erum með reynslumikla menn í okkar liði sem þekkja þetta svið ansi vel þannig að reynsluleysi er ekki útskýring. Ég vill bara gefa Keflavík kredit fyrir þeirra leik og þeir enduðu þennan leik mjög vel."

Nú er Álftanes einum leik frá oddaleik eða sumarfríi. Hvað þarf til að ná fram oddaleik?

„Okkur tókst að halda leiknum nokkuð í okkar hraða í kvöld eins og var á Álftanesi og á sama tíma eru þeir að reyna keyra upp hraðann og það er helsta baráttan. Síðan eru leikirnir bara þannig að þú gerir leikplan sem þér líður vel með og síðan er stærsta óháða breytan leikurinn sjálfur.

Það er tímapunkturinn sem þú labbar inn í þar sem taugarnar, dagsformið og fleira sem spilar inn í. Við höldum bara áfram að vinna í okkar leikplani og tökum það út sem við erum ánægðir með og reynum að eyða út því sem betur mátti fara."

Fara allir heilir út úr leik kvöldsins?

„Já ég er samt á því að ef að menn eru allir 100% heilir þegar komið er í apríl að þá fyrst er eitthvað að. Auðvitað finna menn fyrir álaginu og allt það en það er enginn meiddur þannig," sagði Kjartan Atli í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert