Kom á óvart hvað Evrópumetið var létt

Ellen Ýr Jónsdóttir og Júlían J.K. Jóhannsson með verðlaun sín …
Ellen Ýr Jónsdóttir og Júlían J.K. Jóhannsson með verðlaun sín í dag. mbl.is/Andri Yrkill

„Ég vissi ekki hvað þetta yrði létt, það var það helsta sem kom á óvart,“ sagði Júlían J.K. Jóhannsson þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hann fljótlega eftir að kappinn setti nýtt Evrópumet í réttstöðulyftu í klassískum kraftlyftingum á Reykjavíkurleikunum.

Júlían lyfti 372,5 kg í réttstöðulyftu sem er nýtt Evrópumet, en hann lyfti einnig 330 kg í hnébeygju og 210 kg í bekkpressu sem jafnframt er Íslandsmet.

„Maður keyrir þessar lyftur upp og niður á hverju ári og ég er ekki í mínu toppformi núna, svo það kom mér helst á óvart hvað þetta gekk vel,“ sagði Júlían, en hann setti einnig Evrópumet í réttstöðulyftu á Reykjavíkurleikunum fyrir ári. Þá lyfti hann 365 kg.

„Í millitíðinni kom langur og þungur Svíi sem tók það af mér. Ég sendi honum strax skilaboð, þar sem ég óskaði honum til hamingju en að ég kæmi aftur á eftir metinu. Nú þarf ég bara að senda honum annað skilaboð,“ sagði Júlían og glotti.

Í fyrra þá hafnaði Júlían í öðru sæti í samanlögðum árangri, en nú tók hann hins vegar gullið með496,7 stig (Wilks). Það var sannarlega extra bónus.

„Jú algjörlega, og þetta er líka í fyrsta skipti sem ég keyri þetta svona. Ég hef ekki verið heill í brjóstkassanum síðustu tvenna Reykjavíkurleika, svo ég náði 30 kg meira í bekkpressu núna en í fyrra. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði Júlían, sem hefur jafnframt aldrei náð jafn góðum árangri í samanlögðu í klassískum kraftlyftingum. Hann lyfti alls 912,5 kg.

Næst á dagskrá hjá Júlían er Arnold Classic-mótið í mars, sem er mót kennt við Arnold Schwarzenegger, en þar mun hann keppa í réttstöðulyftu.

„Það verður hörkufjör. Ég og Hjalti Úrsus förum út í einhverja hrikalega réttstöðulyftuferð. Svo er það Evrópumótið í maí. En það er hrikalega gott að byrja árið á þessum nótum,“ sagði Júlían við mbl.is.

Þess má geta að kærastan hans hafnaði í öðru sæti í kvennaflokki. Það er Ellen Ýr Jónsdóttir, en hún lyfti 167,5 kg í hnébeygju, 90 kg í bekkpressu og 160 kg í réttstöðulyftu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert