76.000 án atvinnu eða utan vinnumarkaðar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Einstaklingum sem voru atvinnulausir eða stóðu utan vinnumarkaðarins og voru ekki við störf af ýmsum ástæðum fjölgaði um tugi þúsunda í seinasta mánuði. Þá eru ekki meðtaldir þeir tæplega 33 þúsund einstaklingar sem voru í minnkuðu starfshlutfalli skv. hlutabótaleið Vinnumálastofnunar.

Hagstofa Íslands birti á fimmtudag niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar í apríl sem gefur enn skýrari mynd af þeirri dæmalausu stöðu sem upp kom á vinnumarkaði í kórónuveirufaraldrinum en lesa má úr tölum yfir fjölda þeirra sem hafa skráð sig atvinnulausa hjá Vinnumálastofnun. Byggt er á svörum í úrtakskönnunum þar sem spurt er hvort viðkomandi séu með vinnu eða að leita sér að vinnu og hvort þeir séu tilbúnir að vinna ef hún stendur til boða. Í ljós kemur að alls voru 13.700 einstaklingar án vinnu og í atvinnuleit í seinasta mánuði sem jafngildir 7% atvinnuleysi. Þeir sem voru í hlutabótastörfum teljast ekki með atvinnulausum í könnun Hagstofunnar heldur eru þeir flokkaðir með starfandi á vinnumarkaði.

Hópur þeirra einstaklinga á aldrinum 16 til 74 ára sem ekki voru við störf en eru þó ekki taldir atvinnulausir þar sem þeir eru ekki í atvinnuleit hefur þanist út að undanförnu. Samtals voru einstaklingar utan vinnumarkaðarins 62.200 talsins í seinasta mánuði og hafði þá fjölgað um 17.500 borið saman við sama mánuð í fyrra. Í þessum hópi eru margir sem segjast vera á eftirlaunum eða eru öryrkjar. Á fyrsta fjórðungi þessa árs voru þeir um helmingur allra sem voru utan vinnumarkaðar í könnunum Hagstofunnar. Stór hluti hópsins eru einstaklingar sem eru ekki í atvinnuleit en segjast tilbúnir að vinna ef tækifæri gefst. Um er að ræða m.a. námsmenn, heimavinnandi einstaklinga og þá sem eru veikir eða tímabundið ófærir til vinnu.

Þegar litið er á samanlagðan fjölda þeirra sem eru atvinnulausir og þá sem standa utan vinnumarkaðarins af ýmsum ástæðum telur sá hópur 75.900 einstaklinga. Sé þeim sem voru í minnkuðu starfshlutfalli á hlutabótaleið stjórnvalda bætt við, má gera ráð fyrir að samtals hafi hátt í 110 þúsund einstaklingar ýmist verið atvinnulausir, í minnkuðu starfshlutfalli eða staðið utan vinnumarkaðarins í apríl.

Á von á fjölgun í maí

Ólafur Már Sigurðsson, sérfræðingur hjá Hagstofunni, segir að þetta séu fordæmalausir tímar. Atvinnuleysi hefur vaxið, vinnustundum fækkaði í apríl og fólki utan vinnumarkaðarins fjölgaði mikið. Með réttu megi segja að margir þeirra sem eru utan vinnumarkaðarins hafi í reynd verið atvinnulausir þó þeir séu ekki flokkaðir með atvinnulausum þar sem starfsemi þeirra var tímabundið lokað og þeir voru því ekki að leita sér að vinnu þegar könnunin var gerð.

Rannsókn Hagstofunnar leiðir líka í ljós að ætla má að um 195 þúsund manns hafi verið við störf á vinnumarkaðinum í apríl en hlutfall starfandi af mannfjöldanum var engu að síður aðeins 70,5% og hefur ekki mælst lægra síðan 2003.

Ólafur á von á að atvinnuleysistölurnar fyrir maí muni hækka enn frekar þar sem atvinnuleysi mælist yfirleitt hæst í þeim mánuði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK