Launavísitala hækkar verulega þrátt fyrir faraldur

„Þessi staða er algerlega ný í íslenskri hagsögu. Í kreppum …
„Þessi staða er algerlega ný í íslenskri hagsögu. Í kreppum til þessa hefur kaupmáttur launa yfirleitt lækkað verulega, en atvinnustigið haldið nokkuð vel,“ segir í hagsjánni. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil hækkun varð á launavísitölu í október, samkvæmt hagsjá Landsbankans. Þar kemur fram að hækkun launavísitölu síðustu mánuði sé „óneitanlega dálítið sérstök“. Vísitalan hækkaði um 0,7% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,1% en það er mesta ársbreyting frá því í apríl árið 2018.

„Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en hefur verið vel ofan við 6% allt frá því í apríl. Þessi mikla hækkun launavísitölu er óneitanlega dálítið sérstök miðað við þann mikla slaka sem hefur verið á vinnumarkaði síðustu mánuði.“

Hluta af hækkuninni má líklega skýra með áhrifum af hækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga grunnskólakennara og hjúkrunarfræðinga. Fyrir utan venjulegar hækkanir grunnlauna er ekki ólíklegt að auknar aukagreiðslur(álags-, bónus- og vaktagreiðslur) hafi haft áhrif til hækkunar launavísitölu.

„Vísitala neysluverðs hækkaði 3,6 milli októbermánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 7,1% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára er enn töluverð, eða 3%,“ segir í hagsjánni. 

Opinberi markaðurinn líklega leiðandi í launabreytingum

Þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum er kaupmáttur launa áfram mjög mikill í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitala hefur haldið nokkuð vel síðustu mánuði og var kaupmáttur launa í október einungis 0,4% minni en í apríl, þegar hann var hæstur.

„Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá ágúst 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6% á þessum tíma og um 8,2% á þeim opinbera, 7,5% hjá ríkinu og 9% hjá sveitarfélögunum. Mæld launavísitala hækkaði um 6,4% á sama tíma.

Því virðist sem opinberi markaðurinn sé leiðandi í launabreytingum um þessar mundir, enda voru kjarasamningar gerðir mun seinna á opinbera markaðnum en á þeim almenna. Sé litið yfir aðeins lengra tímabil má sjá að laun á almenna markaðnum hafa hækkað meira,“ segir í hagsjánni. 

„Af starfsstéttum á almenna markaðnum hækkuðu laun verkafólks mest milli ágúst 2019 og 2020, um 7,8%. Laun skrifstofufólks hækkuðu næst mest, um 7,5%. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 3,7%. Launavísitalan hækkaði um 6,4% á þessu tímabili þannig að laun verkafólks hafa hækkað mun meira en meðaltalið og laun stjórnenda verulega minna.“

Líklegt að töluvert atvinnuleysi verði langvinnt

„Meðal atvinnugreina hækkuðu laun mest í veitustarfsemi á milli ágúst 2019 og 2020, um 9,6%, og minnst í byggingu og mannvirkjagerð, um 4,2%. Það lítur því út fyrir að minni umsvif í byggingarstarfsemi hafi minnkað launaþrýsting í þeim greinum.“

Enn eykst atvinnuleysi og er það nú komið yfir 10%. Þrátt fyrir jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis er óvissan um atvinnustigið enn mikil, að því er segir í hagsjánni, og því er líklegt að töluvert atvinnuleysi verði langvinnt.

„Þessi jákvæða launaþróun er því ekki beint í takt við slakan vinnumarkað. Laun munu hækka samkvæmt kjarasamningum í upphafi næsta árs og haldi verðlagsþróun áfram með svipuðum hætti má búast við áframhaldandi kaupmáttaraukningu.

Þessi staða er algerlega ný í íslenskri hagsögu. Í kreppum til þessa hefur kaupmáttur launa yfirleitt lækkað verulega, en atvinnustigið haldið nokkuð vel. Þessar síðustu tvær kreppur eru sérstakar að því leyti að svo virðist sem sú langvarandi sérstaða okkar að ná að vernda atvinnustigið í kreppum sé á undanhaldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK