Spá áframhaldandi hjöðnun verðbólgu

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga muni lækka lítillega í …
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga muni lækka lítillega í september. Enn er þó gert ráð fyrir að matvara hækki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ársverðbólgan fór hæst í 9,9% í júlí og lækkaði svo í 9,7% í ágúst. Samkvæmt spá hagfræðideildarinnar hækkar almennt verðlag milli ágúst og september um 0,34%. Ef sú spá gengur eftir mun ársverðbólgan mælast 9,6% í september. Ástæða þess að ársverðbólgan gæti lækkað, þrátt fyrir hærra verðlag, er að hækkunin á sama tíma fyrir ári var umfram þau 0,34% sem hagfræðideildin spáir.

Þá segir hagfræðideildin líklegt að verðbólgan haldi áfram að hjaðna smám saman á næstunni og að hún verði komin niður í 8,8% í desember.

Sumarútsölur teygt sig lengra

Í greiningu deildarinnar segir að í síðasta mánuði hafi ekki komið á óvart að flugfargjöld hafi lækkað í ágúst. Lækkunin var hins vegar aðeins meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þá hafi föt og skór hækkað minna en búist var við. Líkleg skýring á því er að sumarútsölur hafi teygt sig lengra inn í ágúst en reiknað var með. Gerir hagfræðideildin ráð fyrir að sá liður hækki nú milli mánaða.

Samkvæmt spánni er það hins vegar hækkun á mat og drykkjarvöru sem mun drífa áfram hækkun verðlags í september. Spáir deildin því að þar muni mælast 1,2% hækkun sem veldur 0,18% hækkun á vísitölu neysluverðs.

Áfram er spáð lægri flugfargjöldum. Talið er að lækkunin verði 6,59% og muni hafa 0,14% áhrif til lækkunar á vísitöluna. Húsnæði án húsaleigu er talið hækka um 0,28% og hækka vísitöluna um 0,03% og reiknuð húsaleiga muni hækka um 0,55% sem hækki vísitöluna um 0,11%. Telur hagfræðideildin að miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði séu að baki og að við taki mun hóflegri hækkanir. Spáir hún því að vísitala íbúðaverðs hækki um 0,6% á næstu mánuðum. Það eru mun minni hækkanir en verið hefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK