Neysla Ozempic gæti breytt allri neysluhegðun

Ozempic er framleitt af danska fyrirtækinu Novo Nordisk.
Ozempic er framleitt af danska fyrirtækinu Novo Nordisk. AFP

Á meðan aukin notkun sykursýkis- og þyngdartapslyfsins Ozempic kann að hafa neikvæð áhrif á matvöruverslanir er allt eins líklegt að það muni hafa aukin áhrif á fataverslun og aðra lífstengda þjónustu. Aukin notkun lyfsins mun því að öllum líkindum fela í sér umtalsverðar efnahagslegar afleiðingar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Helgu Viðarsdóttur, fjárfestis og eiganda Spaks Invest, sem birtist í ViðskiptaMogganum. Ozempic er sem kunnugt er framleitt af danska fyrirtækinu Nova Nordisk.

Í greininni fjallar Helga um ýmsar framfarir sem hafa falið í sér efnahagslegar breytingar og breytt neysluvenjum fólks varanlega. Þannig rekur Helga meðal annars stuttlega hvernig hlutir á borð við innkaupakerrur og gúmmístígvél hafa á liðnum áratugum breytt neysluhegðun fólks og aukið veltu í smásölu.

„Staðreyndin er sú að okkur hættir til þess að vanmeta hvað sumar hversdagslegar nýjungar geta haft mikil áhrif,“ segir Helga í greininni.

Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Getur eitt nýtt lyf breytt heiminum?

Þegar ég var lítil stúlka man ég eftir viðtali við gamlan mann í sjónvarpinu sem var spurður að því hvaða eina tækninýjung tuttugustu aldar hefði haft mest áhrif á líf hans. Svar mannsins kom á óvart: Gúmmístígvél. En kannski ekki ef við hugsum til þess að áður en gúmmístígvél eða gúmmískór komu til sögunnar var skóbúnaður fólks ekki vatnsheldur og yfirleitt mjög lélegur. Sú framför að vera ekki lengur kaldur og blautur í fæturna heldur í góðum gúmmístígvélum fól í sér mikla aukningu á lífsgæðum fólks.

Helga Viðarsdóttir, eigandi og sjóðstjóri Spaks Invest hf.
Helga Viðarsdóttir, eigandi og sjóðstjóri Spaks Invest hf.

Staðreyndin er sú að okkur hættir til þess að vanmeta hvað sumar hversdagslegar nýjungar geta haft mikil áhrif.

Tökum sem dæmi innkaupakerruna. Hún er ein af þeim uppfinningum tuttugustu aldar sem hafa haft hvað mest áhrif á neysluvenjur fólks. Innkaupakerran var fyrst kynnt til sögunnar 4. júní 1937 af Sylvan Goldman sem rak verslunarkeðju í Oklahoma sem hét Humpty Dumpty. Hann var að velta fyrir sér hvernig hægt væri að fá fólk til þess að kaupa meira í búðunum hans. Það gekk ekki vel í fyrstu að fá fólk til þess að nota innkaupakerrur. Þær þóttu minna of mikið á barnavagna. Goldman varð því að ráða leikara til þess að keyra kerrurnar um búðina til þess að sýna viðskiptavinunum hvað það væri hentugt að nota þær. Brátt urðu kerrurnar feikivinsælar og breiddust út um Bandaríkin á stríðsárunum og eftir það um allan heiminn.

Innkaupakerran umbylti verslun. Áður gekk fólk upp að búðarborði og bað um vörur. Starfsmaður verslunarinnar tíndi síðan vörurnar saman og lét í poka. Með tilkomu kerrunnar urðu til stórmarkaðir þar sem fólk tíndi sjálft vörurnar saman og fór síðan með til starfsmannsins. Þetta leiddi bæði til samþjöppunar í verslun og til vinnusparnaðar. Á Íslandi gerðist þetta með stofnun Hagkaups árið 1959 en þá sögu þekkja flestir. Þá urðu einnig róttækar breytingar á neysluvenjum. Fólk fór að versla sjaldnar og meira í einu. Þá varð einnig þörf fyrir stóra kæliskápa og frystikistur á heimilum. Í framhaldi varð einnig þörf á því að eiga bifreið til þess að keyra góssið heim. Þegar allir voru komnir á bíla skapaðist þörf fyrir bílastæði og fóru verslanir að færa sig frá miðbæjarkjörnum í úthverfi til þess að komast í nægjanlegt rými og lægra lóðaverð.

Vafalaust væri hægt að rekja þessa orsakakeðju enn lengra. En ég læt staðar numið hér.

Sagan af innkaupakerrunni er sett til áminningar um hvað litlar uppfinningar sem eru jafnvel ekki taldar sérstaklega merkilegar geta haft víðtæk áhrif. Þetta skiptir máli vegna þess að líklega er sagan að endurtaka sig núna með tilkomu sykursýkis- og þyngdartapslyfsins Ozempic eða GLP-1 sem er framleitt af danska fyrirtækinu Nova Nordisk. Ljóst er að salan á lyfinu gengur vel og gengi félagsins hefur hækkað um meira en 440% á aðeins fimm árum. Þá hafa lífsgæði þeirra aukist sem eiga við sykursýki eða matarfíkn að stríða. Hins vegar virðist sem áhrifin verði meiri og djúpstæðari og muni koma fram mjög víða í efnahagslífinu.

Nú er talið að allt að 10 milljónir lyfseðla hafi verið gefnar út fyrir Ozempic í Bandaríkjunum og ljóst að mun fleiri en offitu- og sykursýkissjúklingar sækja í lyfið. Í stóra samhenginu eru 10 milljónir kannski ekki há tala. Talan svarar til 3% af bandarísku þjóðinni. Það eru fleiri lyf sem hafa sömu virkni og Ozempic og þeim fjölgar ört sem keppa á þessum markaði. Þessi 3% gætu því hæglega verið nær 5% ef bæði Ozempic og þyngdartapslyfið Wegovy eru talin með. En samkvæmt rannsókn sem var framkvæmd af Morgan Stanley er búist við að 7% af bandarísku þjóðinni muni nýta sér lyf til að hafa áhrif á líkamsþyngd sína fyrir árið 2035. Þá í framhaldi mun notkun lyfjanna hafa neikvæð áhrif á matvöruverslun. Þetta hefur raunar þegar gerst en forstjóri Walmart John Furner sagði nýverið í viðtali við Bloomberg að Ozempic hefði dregið úr sölu í verslunum hans. Áhrifin gætu þó verið víðtækari en þetta. Ozempic virðist hjálpa fólki að stjórna margs konar fíkn eða ávana, líkt og tóbaks-, áfengis- og tölvuleikjanotkun. Könnun á vegum Numerator sem var lögð fyrir 100.000 manns í nóvember í fyrra sýnir að fólk sem tekur lyf af gerðinni GLP-1 eyðir minna í mat og áfengi en meira í óáfenga drykki. Kannski stafar þetta af því að þyngdartap verður gjarnan til þess að fólk endurskoðar neyslumynstur sitt. Þannig gæti Ozempic leitt til þess að fólk dregur úr hvers konar óhollustu en beinir neyslu sinni að heilsuvörum. Þá mun grennra fólk fara að huga meira að tísku, fatnaði og ýmissi lífsstílstengdri þjónustu.

Þegar öllu er á botninn hvolft hættir okkur kannski til þess að vanmeta hve mikil áhrif ofþyngd og slæmar neysluvenjur hafa á líf svo margs fólks. Ef Ozempic hjálpar þeim að rjúfa þennan vítahring, þá hljóta neysluvenjurnar að breytast með áþreifanlegum hætti. Það leiðir síðan til þess að sum fyrirtæki tapa en önnur hagnast. Í því ljósi er mjög áhugavert að reyna að kortleggja Ozempic og áhrifin á bandarískan hlutabréfamarkað. Þau munu að öllum líkindum fara að koma fram. Svo er einnig líklegt að áhrifin verði dýpri og langvinnari en okkur grunar, líkt og þegar innkaupakerran leit fyrst dagsins ljós.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK