Elti drauminn til New York

Kris kann hvergi betur við sig en uppi á sviði.
Kris kann hvergi betur við sig en uppi á sviði. Samsett mynd

Leik- og söngkonan Kristrún Jóhannesdóttir eða Kris eins og hún kýs að láta kalla sig hefur á undanförnum árum elt drauminn í menningarborginni New York. Hún útskrifaðist frá söngleikjadeild American Musical and Dramatic Academy (AMDA) nýverið og er nú á fullu að koma fram og sækja áheyrnarprufur, en stóri draumurinn er að stíga á svið á Broadway. 

„Mig hefur alltaf dreymt um að búa í New York eða alveg frá því ég man eftir mér. Síðustu ár hafa því verið sannkallaður draumur,“ segir Kris sem hefur verið búsett í borginni ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Magnúsi Erlendssyni, frá árinu 2021. 

Kris ásamt eiginmanni sínum á útskriftardaginn.
Kris ásamt eiginmanni sínum á útskriftardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Fékk hæsta styrkinn

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um í AMDA?

„Ég hef alltaf þráð að leika og syngja á sviði og ákvað að láta gamlan draum rætast. AMDA var góður kostur fyrir mig þar sem söngleikjadeildin einblínir á kennslu í leiklist, söng, dansi og fleiri fögum sem því tengjast. Ég sé ekki eftir því að hafa valið AMDA. Tíminn þar var dásamlegur og lærdómsríkur.“

Hvernig leið þér þegar þú fékkst inngöngu í skólann?

„Mér leið ólýsanlega vel. 

Það er líka gaman að segja frá því að stjórnendur skólans voru himinlifandi með prufurnar sem ég sendi inn og var mér veittur hæsti mögulegi skólastyrkur sem nemanda AMDA býðst. Höfuðið var klárlega í skýjunum.“

Hvað kom þér einna helst á óvart við námið?

„Ábyggilega steppið. Það kom mér mjög á óvart að þurfa að dansa steppdans í hælaskóm og hversu erfitt það var að venjast því.“

Kris fór með hlutverk Kate í söngleiknum The Wild Party …
Kris fór með hlutverk Kate í söngleiknum The Wild Party árið 2022. Ljósmynd/Aðsend

„Ég elska Broadway“

Hvaða hverfi er í uppáhaldi hjá þér?

„Uppáhalds hverfið mitt í New York er Manhattan. Við erum búsett þar.

Fyrsta árið okkar í New York þá bjuggum við í Upper West Side en í dag erum við búsett í Harlem. Mér þykir mjög vænt um bæði þessi hverfi en þau eiga ekki roð í Soho eða South of Houston Street. Þar er að finna allar uppáhalds vintage-búðirnar mínar, veitingastaði og arkitektúr.“

Áttu þér uppáhalds veitingastað, kaffihús eða krá?

„Uppáhalds veitingastaðurinn minn á Manhattan heitir Two Hands og er staðsettur í Soho. Það er ástralskur bröns-veitingastaður sem ég heimsæki mjög reglulega. Þar er búin til og seld sterk sósa (e. hot sauce) sem er mikið notuð á mínu heimili.“

Kris elskar lífið í New York.
Kris elskar lífið í New York. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhalds kaffihúsið mitt heitir Sugar Hills og er staðsett beint á móti íbúðinni okkar í Harlem. Ég fer þangað nánast á hverjum einasta degi. Sugar Hill býr til besta jarðarberja-matcha sem til er. Svo skemmir ekki fyrir að góðvinkona mín og nágranni, Love, starfar þar sem kaffibarþjónn og fæ ég því góðan afslátt.“

Hvað gerir þú þér til skemmtunar?

„Ég fer á Broadway-sýningar, tónleika og í bíó. Ég fæ reglulega frímiða í gegnum AMDA sem gerir mér kleift að sjá flestar sýningar á Brodway. Ég elska Broadway. Nýlega fór ég á söngleikinn The Notebook, hann var æðislegur.“

Kris ásamt góðvinum sínum og skólafélögum, Melanie og Michael, að …
Kris ásamt góðvinum sínum og skólafélögum, Melanie og Michael, að lokinni sýningu á söngleiknum Hairspray. Melanie fór með hlutverk í sýningunni. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst algjör heiður að fá greitt fyrir að syngja“

Hvernig hefur söngferillinn gengið?

„Mun betur en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér. Ég hélt alltaf að leiklistin yrði númer eitt en verkefnin sem ég hef fengið hafa aðallega verið tengd söng. Mér finnst algjör heiður að fá greitt fyrir að syngja og þá sérstaklega á stöðum sem ég ber mikla virðingu fyrir.“

Hvar hefur þú verið að koma fram?

„Svona hér og þar. Staðirnir sem standa upp úr hjá mér eru The Green Room 42 og Vice Versa. Það var líka mögnuð upplifun að fá að koma fram á jólahátíðinni við Times Square. Að syngja í miðbænum þar sem allt iðar af lífi er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Hefur þú hitt einhverjar stórstjörnur?

„Heldur betur! Ég var að vinna í Hudson-leikhúsinu um tíma og starfaði baksviðs. Þar fékk ég tækifæri til að kynnast leikhúslífinu frá öðru sjónarhorni og hitti fjölmargar stórstjörnur, meðal annars Jessicu Chastain, Jonathan Groff og Daniel Radcliffe.“

Kris að syngja lagið Summertime Sadness.
Kris að syngja lagið Summertime Sadness. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert