„Ég var búin að bíða lengi eftir því að verða móðir“

Hjúkrunarfræðingurinn Hulda Viktorsdóttir mun útskrifast sem ljósmóðir í sumar.
Hjúkrunarfræðingurinn Hulda Viktorsdóttir mun útskrifast sem ljósmóðir í sumar. Samsett mynd

Hulda Viktorsdóttir er þrítug tveggja barna móðir og hjúkrunarfræðingur sem mun útskrifast sem ljósmóðir í sumar. Hulda og unnusti hennar, Jón Óskar Karlsson, höfðu verið að reyna við barneignir í dágóðan tíma og fóru í gegnum tvær glasameðferðir áður en hún varð ófrísk að eldri syni þeirra. Í dag eiga þau tvo syni, Hinrik Karl sem er fjögurra ára og Viktor Karl sem er tæplega tveggja ára. 

„Við Jón Óskar kynntumst í gegnum sameiginlega vini þegar við vorum í Verzló og byrjuðum saman þegar ég var 17 ára og hann 19 ára. Þannig við höfum verið saman í næstum 13 ár,“ segir Hulda. 

Hulda og Jón Óskar kynntust þegar þau voru í menntaskóla …
Hulda og Jón Óskar kynntust þegar þau voru í menntaskóla og hafa nú verið saman í að verða 13 ár.

Þegar Hulda varð ófrísk að eldri syni þeirra höfðu þau Jón Óskar verið að reyna við barneignir í dágóðan tíma. „Þegar það kom í ljós að eggjaforði minn væri af skornum skammti var okkur ráðlagt að fara beint í glasameðferð. Það gekk ekki nógu vel að örva eggbúin í fyrstu svo við þurftum tvær tilraunir áður en ég varð ólétt,“ segir Hulda. 

„Þetta var alveg ótrúlega krefjandi tími og svona þegar ég horfi til baka sé ég hvað mér leið illa í öllu þessu ferli. Maður var bara í hálfgerðu „survival mode-i“ að reyna allt til að verða ólétt og það varð hálfgert spennufall að fá svo jákvætt þungunarpróf. Í stóra samhenginu var okkar ferli samt alls ekki jafn langt og erfitt og margir þurfa að ganga í gegnum og ég er bara svo ótrúlega þakklát að þetta gekk upp og í dag eigum við þennan fullkomna dreng sem þurfti aðeins að hafa fyrir að búa til,“ bætir hún við. 

Hulda segir aðdraganda þungunar fyrsta barns þeirra Jóns Óskars hafa …
Hulda segir aðdraganda þungunar fyrsta barns þeirra Jóns Óskars hafa verið krefjandi og tekið á.

Fékk fréttirnar á McDonalds bílaplani á Spáni

Hulda segir upplifunina þegar þau komust að því að hún væri ófrísk í annað sinn hins vegar hafa verið gjörólíka. „Ég var þarna nýbyrjuð í ljósmóðurfræðinni og við alls ekki í barneignarhugleiðingum. Það var svo eitt föstudagskvöld, Jón Óskar var á Spáni í golfferð og ég var að svæfa strákinn okkar, að ég fann lítilsháttar verk yfir leginu sem ég hafði bara fundið fyrir á fyrri meðgöngu og hugsaði þá strax hvort það gæti verið að ég væri ólétt. Ég tók þungunarpróf sama kvöld sem kemur blússandi jákvætt út. Ég fer svo bara að sofa þetta kvöld og tek svo annað próf þegar ég vakna sem var líka jákvætt.

Ég reyni að hringja í Jón Óskar til þess að segja honum frá þessu en hann var að verða of seinn í golfhring og hafði engan tíma til að tala við mig. Ég sendi honum skilaboð að ég þurfi helst að ná að tala við hann sem fyrst og við ætluðum að heyrast eftir golfhringinn. Þetta var lengsti golfhringur sem spilaður hefur verið á ævinni, í minningunni allavega, en loksins hringir hann í mig. Hann er þá á McDonalds með öllum strákunum í ferðinni, ég bið hann að rölta út og koma á Facetime,“ rifjar Hulda upp.

Hulda komst að því að hún væri ófrísk að yngri …
Hulda komst að því að hún væri ófrísk að yngri syni sínum þegar Jón Óskar var í golfferð á Spáni.

„Hann var mjög hissa á þessu brasi í mér og spyr mig meira að segja í algjöru gríni hvort ég sé ólétt. Það var þar á bílaplaninu á McDonalds á Spáni sem hann kemst að því að við eigum von á okkar öðru barni. Geðshræringin leyndi sér ekki hjá okkur en við vorum samt alveg ótrúlega ánægð með þennan litla laumufarþega. Okkur fannst þetta mjög kímið að eiga þessar samræður á Facetime og Jón Óskar standandi á McDonalds bílastæði.

Þannig nú eigum við eitt barn sem var algjörlega þaulplanað og annað sem kom alveg óvænt undir þó svo við þykjumst alveg vita hvernig börnin verða til þá bjuggumst við ekki alveg við því í okkar tilfelli,“ bætir hún við. 

Bræðurnir í góðum gír.
Bræðurnir í góðum gír.

Ótrúleg upplifun að fara í fyrirfram ákveðinn keisara

Aðspurð segir Hulda báðar meðgöngurnar hafa gengið eins og í sögu. „Ég fór að finna snemma til í grindinni og það var það eina sem hrjáði mig á meðgöngunum. Ég þurfti því að passa að ofgera mér ekki sem gat verið aðeins erfitt á seinni meðgöngunni þar sem ég var í miklu verknámi á Landspítalanum sem ég þurfti helst að ná að klára fyrir fæðingarorlof. En það gekk allt upp á endanum,“ segir hún. 

Hulda segir fæðingarnar hins vegar hafa verið gjörólíkar. „Eldri strákurinn minn var í sitjandi stöðu undir lok meðgöngunnar. Ég fór í vendingu þar sem reynt var að snúa honum í höfuðstöðu en það gekk ekki og hann sat sem fastast með rassinn ofan í grindina. Ég fór þá í vaxtarsónar og grindarmælingu og miðað við stærð hans og grindina mína þá var mér ekki ráðlagt að fara í sitjandi leggangafæðingu og fórum við því í fyrirfram ákveðinn keisara. Það var ótrúleg upplifun. Við röltum bara inn á skurðstofuna og ég lagðist á skurðborðið og stuttu seinna kom hann grátandi út. Gekk allt eins og í sögu,“ segir Hulda. 

Hulda segir upplifunina að fara í fyrirfram ákveðinn keisara hafa …
Hulda segir upplifunina að fara í fyrirfram ákveðinn keisara hafa verið ótrúlega.

Fæðing yngri sonar Huldu var hins vegar aðeins lengri og tók meira á. „Ég stefndi á að reyna leggangafæðingu þá og var mjög spennt að fá að upplifa hríðarverki og að fæða barn um leggöng. Ég var gengin rúma 41 viku fór ég í belgjalosun hjá ljósmóðurinni minni í meðgönguvernd og nóttina eftir það fór ég að finna fyrir samdráttum. Þeir voru óreglulegir og vægir fyrst um sinn. Ég var heima með þessa óreglulegu samdrætti í örugglega 17 til 18 klukkutíma, notaðist mikið við jógabolta og TENS tæki til að hjálpa mér að vinna með verkina heima.

Ég var síðan orðin frekar þreytt um kvöldið og verkirnir orðnir mikið reglulegri og hringdi upp á spítala og fékk að koma í skoðun um klukkan 22:00. Þá var ég „bara“ komin með fjóra cm í útvíkkun en var með frekar reglulega og sterka samdrætti og fórum við því inn á fæðingarstofu. Þar fór ég strax að nota glaðloftið sem var algjör himnasending. Nóttin leið svo og framgangur í fæðingunni gekk nokkuð vel miðað við það að leghálsinn minn var bara að opnast í fyrsta skipti þrátt fyrir að þetta væri annað barnið mitt. Það var svo ekki fyrr en í hádeginu sem hann fæddist loksins. Við vorum bæði þreytt eftir fæðinguna og hann þurfti smá súrefnisaðstoð og tíma til að jafna sig,“ segir Hulda. 

Seinni fæðingin var lengri og tók meira á.
Seinni fæðingin var lengri og tók meira á.

„Það er ekki hægt að lýsa valdeflingunni í orðum þegar hann fæddist en ég náði að grípa undir hendur hans og taka á móti honum sjálf, að sjálfsögðu með mikilli aðstoð Stellu yndislegu ljósmóðurinni okkar, þar sem naflastrengurinn var líka vafinn um háls hans. Stuttu eftir fæðinguna fer mér að blæða mjög mikið og á nokkrum sekúndum fyllist stofan okkar af heilu landsliði af ljósmæðrum, læknum og sjúkraliðum til þess að stöðva blæðinguna sem gekk að lokum vel. Það sem stóð upp úr þar var þessi ótrúlega flotta teymisvinna sem átti sér stað og ég var svo stolt að fá að tilheyra þessari stétt. Á meðan á blæðingunni stóð sat maðurinn minn í „lazyboy“ stólnum, sem allir stuðningsaðilar í fæðingum á Landspítalanum þekkja, með strákinn okkar í fanginu og var alveg hissa á því hversu slök ég var en ég treysti fagfólkinu á stofunni algjörlega í þessum aðstæðum.

Það hjálpaði mér líklega að ég þekki verkferlana við blæðingum sjálf svo ég vissi hvað var verið að gera við mig allan tímann. Mér leið öruggri allan tíman. Þegar búið var að stöðva blæðinguna komst allt í ró hjá okkur. Við þurftum að jafna okkur í einn sólarhring á meðgöngu- og sængurlegudeildinni sem var bara notalegt. Ég fékk margar heimsóknir frá bekkjarsystrum mínum sem voru allar í verkámi á spítalanum en einnig voru yndislegar vinkonur mínar sem sinntu mér á deildinni. Æskuvinkona mín framkvæmdi svo barnalæknis útskriftarskoðunina á lillanum mínum svo ég var með mitt besta fólk að sinna okkur. Það var mjög dýrmætt,“ segir Hulda. 

Hulda þekkir vel til verkferlanna á spítalanum og leið öruggri …
Hulda þekkir vel til verkferlanna á spítalanum og leið öruggri allan tímann.

Forréttindi að fylgja fjölskyldum í gegnum ferlið

Spurð hvernig það hafi verið að vera ófrísk að vinna á fæðingardeildinni lýsir Hulda því sem ótrúlega skemmtilegri reynslu. „Mér fannst yndislegt að fá að fylgja fjölskyldum í gegnum fæðingu og ég fann að áhugi minn á fæðingum jókst enn meira. Ég fann samt að hormónarnir mínir voru í aðeins meira ójafnvægi en vanalega og í hverri fæðingu fékk ég alltaf kartöflu í hálsinn og vot augu, maður samgladdist fjölskyldunum eitthvað svo extra mikið á þessum tímapunkti,“ segir hún. 

„Það besta við að starfa á fæðingarvaktinni er einmitt þau forréttindi að fá að fylgja fjölskyldum í gegnum þetta ferli að eignast barn. Það að fá að aðstoða og styðja konur í fæðingu er ólýsanlegt og svo dýrmætt að fá að kynnast öllum þessum fjölskyldum sem eru eins misjafnar og þær eru margar. Ég hef ekki enn sinnt fjölskyldu í mikilli sorg þó svo að ég hafi fylgt fjölskyldum með misstóran bakpoka á bakinu en það er auðvitað mest krefjandi þegar fólk hefur miklar áhyggjur af barninu sínu. Það er sjaldan róleg stund á vaktinni og þegar ég mæti á vakt veit ég aldrei hvað bíður mín,“ bætir hún við. 

Huldu þykir það vera mikil forréttindin að vera á fæðingardeildinni …
Huldu þykir það vera mikil forréttindin að vera á fæðingardeildinni og fylgja fjölskyldum í gegnum ferlið að eignast barn.

Huldu þótti einnig dásamlegt að vera ófrísk í náminu. „Ég held ég hafi verið extra móttækileg fyrir nýjum upplýsingum og þekkingu og tók vel eftir því sem gæti gagnast mér sem verðandi ljósmóðir og fyrir komandi fæðingu hjá mér sjálfri. Ég fékk oft spurninguna á meðgöngunni hvort mér finndist ekki erfitt að sjá þegar eitthvað gekk ekki vel í fæðingum eða eitthvað fór úrskeiðis en það truflaði mig ekki. Allar fæðingar eru ólíkar og hver og ein kona upplifir fæðingu á ólíkan hátt. Ég held þvert á móti að það hafi frekar hjálpað mér að sjá hvað fæðingar geta verið gerólíkar, verkjaupplifun kvenna er mjög misjöfn sem og fæðingarmáti,“ segir hún. 

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst móðir?

„Ég var búin að bíða lengi eftir því að verða móðir og fannst ég vera mjög tilbúin í það en auðvitað var þetta mikil breyting og kannski helsta breytingin var hversu mikið minni frítíma maður hefur. En á móti kemur þá nýtir maður frítíma sinn enn betur þegar hann gefst. Annars myndi ég bara segja að lífið hafi algjörlega breyst til hins betra eftir að ég varð móðir. Stundum bíð ég spennt eftir því að komast í smá „mömmufrí“ en korteri seinna sakna ég þeirra svo mikið að mér finnst ég ekki þurfa þessa pásu lengur.“

Hulda segir lífið hafa breyst til hins betra eftir að …
Hulda segir lífið hafa breyst til hins betra eftir að hún varð móðir.

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi foreldra?

„Ekkert nema kannski bara að hlusta alltaf á eigið innsæi, við þekkjum líkama okkar og börnin okkar best og ef við höfum einhverjar áhyggjur að fylgja þeim eftir.“

Hulda ráðleggur foreldrum og verðandi foreldrum að hlusta alltaf á …
Hulda ráðleggur foreldrum og verðandi foreldrum að hlusta alltaf á eigið innsæi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert