Biskup dvelji viku í hverjum landshluta

Nýkjörinn biskup Íslands stefnir á að vera með færanlega skrifstofu sem sett verður upp eina viku í hverjum landshluta, árlega. Guðrún Karls Helgudóttir segir þetta hluta af sinni sýn að færa biskupsembættið nær fólkinu í landinu.

Eitt fyrsta verkefnið í þessari skipulagningu er að ákveða hvar skrifstofan verður sett upp í hverjum landshluta. Hún segir þessar heimsóknir óháðar og utan við hinar hefðbundnu vísitasíur þar sem biskup heimsækir sóknir landsins. Vísitasía biskups hvílir á rótgróinni sögulegri hefð og miðaði áður fyrr meðal annars að því að kanna þekkingu ungs fólks í kristnum fræðum.

Séra Guðrún segir að þetta sé nýmæli að biskup setji upp slíka færanlega skrifstofu.

Hún var gestur Dagmála í loks síðustu viku og fór þar vítt og breitt í einlægu samtali um kristna trú og þær áskoranir sem blasa við sem og með hvaða hætti hún vill nálgast embættið. Guðrún Karls Helgudóttir tekur formlega við sem biskup þann 1. júlí en verður vígð tveimur mánuðum síðar.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert