Aston Villa best í innbyrðis leikjunum

Aston Villa endar í fjórða sæti sem er besti árangur …
Aston Villa endar í fjórða sæti sem er besti árangur liðsins frá 1993 þegar liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar. AFP/Oli Scarff

Ef skoðuð eru innbyrðis úrslitin milli liðanna fjögurra sem enda í fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu kemur í ljós að í keppni þeirra á milli hefði Aston Villa endað á toppnum.

Aston Villa fékk 10 stig í vetur úr sex leikjum sínum við Arsenal, Liverpool og Manchester City, liðin þrjú sem eru fyrir ofan Villa. Arsenal fékk 8 stig úr innbyrðis leikjunum, Liverpool 7 og Manchester City aðeins 6.

Manchester City á hins vegar meistaratitilinn vísan fyrir lokaumferðina, með því að vinna West Ham á heimavelli, en náði þrátt fyrir það aðeins að vinna einn leik af sex gegn Arsenal, Liverpool og Aston Villa.

Liverpool  gerði jafntefli í fjórum af sex innbyrðis leikjum liðanna fjögurra.

En það er árangurinn gegn hinum sextán liðunum í deildinni sem ræður úrslitum. Í þeim 31 leik, fyrir lokaumferðina á sunnudaginn, hefur Manchester City fengið 82 stig, Arsenal 78, Liverpool 72 og Aston Villa aðeins 58 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert