Tveir frá Liverpool í sigtinu

Alisson Becker er talinn í hópi bestu markvarða heims.
Alisson Becker er talinn í hópi bestu markvarða heims. AFP/Paul Ellis

Tveir leikmanna Liverpool eru meðal þeirra sem sádiarabísk knattspyrnufélög ætla að reyna að krækja í frá enskum úrvalsdeildarliðum í sumar.

The Guardian segir í dag að egypski framherjinn Mohamed Salah og brasilíski markvörðurinn Alisson Becker séu  tveir þeirra leikmanna sem mestur áhugi sá á af hálfu ríkustu félaganna í sádiarabísku deildinni.

Salah á eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool en Alisson er samningsbundinn félaginu til ársins 2027. Liverpool hafnaði 150 milljón punda tilboði Al-Ittihad í Salah síðasta sumar.

Casemiro og Raphaël Varane, leikmenn Manchester United, eru líka nefndir til sögunnar en þegar er ljóst að Varane fer frá United þegar samningur hans rennur út í sumar.

Möguleikar sádiarabískra liða til að fá til sín erlenda leikmenn hafa aukist þar sem hvert lið má næsta vetur vera með tíu erlenda leikmenn í sínum röðum í stað átta, enda þótt tveir þeirra þurfi að vera yngri en 21 árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert