Krónan með stöðugasta móti

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenska krónan hefur verið með stöðugasta móti gagnvart bæði bandaríkjadal og evru undanfarið. Leitun er að stöðugri mynt á alþjóðlegum mörkuðum um þessar mundir en flökt í krónunni hefur verið mun minna en hjá norsku og sænsku krónunni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu frá Kviku banka.

Kort/mbl.is

Krónan flýtur með evrunni

Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir í samtali við Morgunblaðið að áhugavert sé að krónan sé stöðugri gagnvart evru heldur en gagnvart dollar. Hann útskýrir að það skýrist af því að krónan flýtur með evrunni gagnvart öðrum myntum.

„Það hefur leitt til þess að sveiflur í gengi krónunnar gagnvart evru hafa verið að minnka yfir tíma þar sem samflotið hefur verið að aukast. Þegar breyting verður á gengi evru gagnvart dollar láta miðlarar á Íslandi breytinguna koma fram í gengi krónu gagnvart dollar sem ýkir sveiflur í krónunni á móti dollar en það dregur úr sveiflunum gagnvart evru. Það skýrir að hluta til hví flöktið hefur verið að minnka,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn Hauksson er aðalhagfræðingur Kviku.
Hafsteinn Hauksson er aðalhagfræðingur Kviku. Ljósmynd/Aðsend

Að öðru leyti segir hann erfitt að rekja þennan aukna stöðugleika í gengi krónunnar til neins eins þáttar, en líklega leggjast þar saman bein og óbein áhrif inngripastefnu Seðlabankans, aukin notkun gjaldeyrisvarna, temprandi áhrif lífeyrissjóða, auk þess sem greiðslujöfnuður er í ágætu jafnvægi um þessar mundir.

Seðlabankinn virkur í inngripum

Hafsteinn bendir á að Seðlabankinn hafi á tímabili verið mjög virkur í inngripum á gjaldeyrismarkaði en hafi verið minna virkur undanfarið. Hann segir að inngripastefna Seðlabankans hafi stutt við peningastefnuna ásamt því að beita vaxtatækinu, og hefur verið hluti af því að búa til seljanleika á gjaldeyrismarkaðnum sem er frekar grunnur.

„Þannig segja má að það sé sjálfsuppfyllandi spádómur þegar markaðsaðilar eiga von á minni sveiflum í myntinni, þá eru viðbrögð þeirra við ýmsum skammtímaþáttum líka minni. Það leiðir í sjálfu sér til aukins gengisstöðugleika. Sá trúverðugleiki sem gjaldeyrisforðinn skapar um myntina stuðlar að þessum stöðugleika.“

Notkun á afleiðum aukist

Hafsteinn nefnir þar að auki að undanfarið hefur notkun á afleiðum aukist sem geti dregið úr sveiflum þar sem gjaldeyrisþörf dreifist betur yfir tíma og gjaldeyrisáhætta dreifist betur á milli markaðsaðila. Heimildir til afleiðuviðskipta voru rýmkaðar árið 2021.

Lífeyrissjóðir hafa gjaldeyrisþörf til lengri tíma, en hafa mikinn sveigjanleika með tilliti til tímasetningar gjaldeyriskaupa. Hafsteinn segir að síðasta haust um það leyti sem eldsumbrotin í Grindavík byrjuðu hafi krónan farið að veikjast. Þá fóru lífeyrissjóðir að halda að sér höndum í gjaldeyriskaupum. Lífeyrissjóðirnir séu í þeim skilningi „jaðarkaupandi á gjaldeyrismarkaði“ þar sem þeir geti verið sveiflujafnandi þáttur. Þeir kaupi gjaldeyri þegar krónan er í styrkingarfasa og halda að sér höndum í veikingarfasa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK