Alltaf að baksa í moldinni

Bergrún kippir sér lítið upp við kuldann í bláum sumarkjól.
Bergrún kippir sér lítið upp við kuldann í bláum sumarkjól. mbl.is/Brynjólfur Löve

Fyrir Bergrúnu Örnu Þorsteinsdóttur aðstoðarskógarvörð í Hallormsstaðaskógi kom fátt annað til greina en að vinna í umhverfi þar sem tengslin við náttúruna eru mikil. Það hefur hún gert síðan sumarið 1987 og unir hag sínum vel.

Á austurströnd Lagarfljóts, um 5 kílómetra utan við Fljótsbotninn stendur Hallormsstaðaskógur, einn þekktasti skógur Íslands. Hann býr yfir fjölbreyttu landslagi þar sem finna má um 85 trjátegundir, fjölbreyttan gróður og auðugt fuglalíf.

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður í Hallormsstaðaskógi tekur á móti blaðamönnum í flíspeysu og bláum sumarlegum kjól skreyttum blómum.Klæðnaðurinn ber þess ekki merki að úti sé gaddur og jörð snævaþakin.

Garðyrkjufræðingurinn virðist þó lítið kippa sér upp við kuldann á meðan blaðamennirnir skjálfa á beinunum. Förinni var heitið í starfsmannahúsið Mörkina, teiknað og byggt og Lofti Jónssyni byggingarmeistara, sem hýsir aðstöðu fyrir starfsfólk Skógræktarinnar. Húsið er mannlaust og býður Bergrún blaðamönnum sæti og kaffi í eldhúsinu, sem þeir þiggja en verða þó báðir að afþakka kaffi með sitthvorn orkudrykkinn í hönd.

Bergrún er gestur í Hringferðarhlaðvarpi Morgunblaðsins og má hlusta á viðtalið í heild hér að neðan.

Eftirsótt starfsumhverfi

Sumarstörf í Hallormsstaðaskógi eru eftirsótt enda starfsumhverfið margrómað. Að sögn Bergrúnar sækist fjölbreyttur hópur fólks eftir að starfa á þessum vettvangi.

„Við höfum ekki þurft að auglýsa mjög oft eftir starfsfólki, það einhvernvegin bara sækir um.“

En hvaða verkefnum sinnir aðstoðarskógarvörður?

„Mitt starf er í rauninni öll verkstjórn og að halda um sum sé pantanir og allt þetta daglega – rekstur á deildinni,“ útskýrir Bergrún sem hefur sinnt þessu starfi í liðlega 20 ár, en hún tók við sem aðstoðarskógarvörður árið 2005.

Saga hennar og Hallormsstaðar nær þó lengra aftur en hún hóf fyrst störf á svæðinu árið 1987 þá sem tjaldvörður. Bergrún sem er ekki þekkt fyrir að sitja auðum höndum vann samhliða því í gróðrarstöðinni. Það var síðan árið 1994 sem hún tekur við sem ræktunarstjóri og sinnti hún því starfi næstu níu árin eða allt þar til gróðrarstöðin var lögð niður. Í kjölfarið fer hún að starfa meira við skógræktina í Hallormsstaðaskógi.

„[O]g hugsa um endirinn á trjánum, það er að segja eftir að þau eru vaxin upp – að flettingu og nýtingu skógarins.“

Hallormsstaðaskógur er heillandi allt árið um kring.
Hallormsstaðaskógur er heillandi allt árið um kring. mbl.is/Sonja

Ekkert annað kom til greina

Bergrún ólst upp í Möðrudal á Norðausturlandi og virtist fátt annað koma til greina en að hún yrði garðyrkjufræðingur en starfið virðist henni í blóð borið.

„Ég hef einhvern veginn alltaf verið í moldinni – eitthvað að baksa í mold. 1987 fór ég hér í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað, eins og hann hét þá, og þetta var fyrsta árið sem ég ætlaði að vinna. Móðir mín sagði „líttu þér nær“ þegar ég var að fara að huga að því hvar ég ætti að sækja um. Og ég ákvað að labba niður í skógrækt og sækja um vinnu og síðan má segja að ég hafi ekki farið héðan. Þetta heillaði mig, skógurinn og plönturnar og allt þetta.“

Það kannski vinnur saman að búa líka að reynslunni úr Húsmæðraskólanum?

„Jú, það var í rauninni – ég var búin að vera hérna í þrjá mánuði og heillaðist af umhverfinu og skóginum.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Það er einnig að finna á helstu streymisveitum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert