Þurfum að hjálpa þeim sem ekki fá hjálp heima

PISA 2022 | 8. desember 2023

Þurfum að hjálpa þeim sem ekki fá hjálp heima

Þeir sem ekki ná grunnfærni í lestri eiga á hættu að heltast úr lestinni, fá ekki inngöngu í framhaldsskóla og eiga erfitt með að fóta sig á atvinnumarkaði.

Þurfum að hjálpa þeim sem ekki fá hjálp heima

PISA 2022 | 8. desember 2023

Her­mund­ur Sig­munds­son, pró­fess­or við Há­skóla Íslands og Norska tækni- og …
Her­mund­ur Sig­munds­son, pró­fess­or við Há­skóla Íslands og Norska tækni- og vís­inda­há­skól­ann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem ekki ná grunnfærni í lestri eiga á hættu að heltast úr lestinni, fá ekki inngöngu í framhaldsskóla og eiga erfitt með að fóta sig á atvinnumarkaði.

Þeir sem ekki ná grunnfærni í lestri eiga á hættu að heltast úr lestinni, fá ekki inngöngu í framhaldsskóla og eiga erfitt með að fóta sig á atvinnumarkaði.

Þetta segir Hermundur Sigmundsson, pró­fess­or við Há­skóla Íslands og Norska tækni- og vís­inda­há­skól­ann, og forsvarsmaður rannsóknarverkefnisins Kveikjum neistann.

„Það er líka búið að skoða það að þetta hefur áhrif á þeirra heilsu og vellíðan – þeirra sem ekki ná grunnfærni í lestri. Þetta er svo ofboðslega mikilvægt.“

Niðurstöður PISA-könnunar síðasta árs sýna að um 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Hermundur segir stöðuna grafalvarlega og gerir m.a. athugasemdir við það hvort börn hafi brotið lestrarkóðann eða lesskilningur sé ekki mældur nógu markvisst á Íslandi.

Telur hann stærstu áskorunina í þessum málaflokki vera að hjálpa þeim börnum sem ekki fá aðstoð heima fyrir, sem eru sennilega um 30-40% barna og unglinga hér á landi.

Þurfum að gera kröfu um íslenskukunnáttu

Að mati Hermundar er staðan á leikskólum slæm og telur hann vart hægt að tala um þá sem skólastig yfirhöfuð enda sé hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara lágt.

„Þetta er kallað skólastig en það er ekki þegar það eru 25% menntaðir leikskólakennarar en eiga að vera 66%, 55% ófaglærðir og þar af margir sem kannski tala ekki nógu góða íslensku,“ segir Hermundur.

„Við erum eina landið fyrir utan Portúgal sem hefur fimm ára kröfu um leikskólakennaranám. Við verðum að minnka aftur námið niður í þrjú ár. Við verðum að setja kröfu um íslenskukunnáttu fyrir þá sem vinna í leikskólum landsins.“

Staðan á leikskólum verði könnuð

Þar að auki telur hann mikilvægt að staðan á leikskólum sé markvisst metin með reglubundnum hætti.

„Til dæmis eins og þriggja ára börn. Hvernig er staða þeirra í orðaforða og málskilningi?“ spyr Hermundur.

„Ég hef talað við fimm helstu talmeinafræðinga landsins sem eru oft að vinna með börnum á leikskólaaldri. Ein þeirra sagði við mig: „Hermundur, PISA er ekki að verða betri á næstu árum þegar orðaforði barna og málskilningur er svo slakur á leikskólastiginu“.“

Skortir upplýsingar um stöðu foreldra

„Málskilningur og orðaforði er hlutur sem þarf að vinna með allt frá fæðingu og þar til barnið fer út úr framhaldsskóla. Það virðist líka vera ábótavant, þessi orðaforði og skilningur.“

Að sögn Hermundar skortir einnig upplýsingar um hvort foreldrar á Íslandi treysti sér að aðstoða nemendur á unglingastigi með heimanámið sitt.

„Við erum með engar tölur um þetta, hvernig staðan er hjá þeim sem eru að hjálpa börnunum sínum heima og ekki hjálpa börnunum sínum heima,“ segir hann og bætir við: „Ég tel stærstu áskorunina hjá okkur að hjálpa þeim börnum sem ekki fá hjálp heima.“

mbl.is