Tillögu vegna PISA vísað til skóla- og frístundaráðs

PISA 2022 | 12. desember 2023

Tillögu vegna PISA vísað til skóla- og frístundaráðs

Tillögu Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, um að kallað verði eftir niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá Menntamálastofnun, þar sem niðurstöðunum yrði skipt eftir grunnskólum og skólastjórnendur upplýstir, hefur verið vísað til skóla- og frístundasviðs borgarinnar.

Tillögu vegna PISA vísað til skóla- og frístundaráðs

PISA 2022 | 12. desember 2023

Fundur í borgarstjórn Reykjavíkur.
Fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Tillögu Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, um að kallað verði eftir niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá Menntamálastofnun, þar sem niðurstöðunum yrði skipt eftir grunnskólum og skólastjórnendur upplýstir, hefur verið vísað til skóla- og frístundasviðs borgarinnar.

Tillögu Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, um að kallað verði eftir niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá Menntamálastofnun, þar sem niðurstöðunum yrði skipt eftir grunnskólum og skólastjórnendur upplýstir, hefur verið vísað til skóla- og frístundasviðs borgarinnar.

Þetta varð ljóst nú rétt í þessu, en umræður um PISA-könnunina höfðu þá staðið yfir frá upphafi fundar borgarstjórnar klukkan 12.

Sammála um sláandi niðurstöður

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum borgarfulltrúa, utan Vinstri grænna. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi flokksins, kvaðst hefðu viljað fella tillöguna í stað þess að henni yrði vísað til ráðsins.

Dagur B. Eggertsson sagði að hjörtu borgarfulltrúa slægju að mestu leyti í takt í umræðunum.

Flestir borgarfulltrúar voru þannig sammála um að niðurstöðurnar væru sláandi, þær bæri að taka alvarlega og bregðast þyrfti við sem fyrst.

Ekkert fagnaðarefni

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hafði lagt fram þá tillögu að sundurgreindar niðurstöður könnunarinnar yrðu gerðar stjórnendum grunnskóla borgarinnar opinberar.

Greint var frá tillögunni á mbl.is í morgun.

Sagði hún nauðsynlegt að niðurstöðurnar yrðu aðgengilegar svo hægt væri að nota þær sem mælitæki fyrir hvern skóla. Þær væru svo sannarlega ekkert fagnaðarefni og full ástæða væri til að hafa áhyggjur af stöðunni því árangurinn væri óviðunandi.

Studdi Hildur tillöguna meðal annars með þeim rökum að börn þyrftu að geta lesið sér til gagns og öðlast þá þekkingu sem þau þurfa til áframhaldandi náms og starfa í framtíðinni. Sagði hún læsi vera tól sem gæti hjálpað til að hugsa á gagnrýninn hátt en börn verði í framtíðinni að geta lesið fréttir, nýtt kosningarétt sinn og fleira.

Þurfum að treysta skólastjórnendum

Hildur benti á að áður fyrr hefðu skólarnir fengið aðgang að niðurstöðunum og hefði það nýst þeim vel. Skólastjórnendur hefðu sagt að það hefði reynst gagnlegt að sjá niðurstöðurnar því þá var hægt að ráðast í umbætur til að ná betri árangri.

Nefndi hún sérstaklega að niðurstöðurnar færu versnandi ár frá ári og því þyrfti að treysta skólastjórnendum fyrir þessum mikilvægu upplýsingum.

Þeir þyrftu að fá niðurstöðurnar í sínar hendur til að meta stöðuna því þær væru mælitæki fyrir þá til að meta hvar skóli þeirra stendur og til hvaða úrbóta þeir geti gripið.

Grafalvarlegt væri að Ísland væri undir meðaltali í samanburði við OECD-ríkin og Norðurlöndin.

Sagði ekki gott að aðrar greinar vikju

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagðist á fundinum fagna umræðunni um menntamálin í kjölfar niðurstaðna PISA. Umræðan væri bæði betri og yfirvegaðri en oft áður þó niðurstöðurnar væru dramatískari þar sem Ísland lækkaði meira nú en í fyrri könnunum.

Sagði hann að nauðsynlegt væri að skoða hvernig hægt best væri að nýta þessar niðurstöður til úrbóta. Við yrðum að setja okkur markmið að ná árangri í PISA þó ýmsir aðrir mælikvarðar væru mikilvægir líka eins og líðan barna í skólum sem væri almennt góð hér á landi.

Nefndi hann að sums staðar í heiminum hefðu áherslurnar á PISA-greinarnar orðið til þess að aðrar greinar, líkt og list- og verkgreinar, fengju að víkja sem væri ekki gott en í Reykjavík væri hins vegar verið að vinna í því að efla tónlistarnám, eins og söng og kórastarf, innan veggja skólanna.

Huga þarf að efnahagslegum ójöfnuði

Fór borgarstjóri meðal annars yfir nokkrar mögulegar ástæður fyrir lakari árangri í PISA og nefndi til að mynda ytri þætti eins og heimsfaraldurinn, samfélagsmiðla, lítið málsvæði og fleira sem vert væri að taka inn í umræðuna þar sem skoða þyrfti heildarmyndina.   

Einna nauðsynlegast væri að huga að mikilvægi jöfnuðar því efnahagslegur ójöfnuður skipti máli og horfa þyrfti til þess hvernig mæta ætti börnum sem þurfa sérstakan stuðning, bæði í skólanum og heima fyrir.

Þá lagði hann að lokum til að tillögu Sjálfstæðisflokksins yrði vísað til skóla- og frístundaráðs borgarinnar þar sem hún yrði tekin til skoðunar.

mbl.is