Grípa til aðgerða vegna PISA

PISA 2022 | 10. júlí 2024

Grípa til aðgerða vegna PISA

Garðabær stefnir að því að setja upp aðgerðaáætlun til að styrkja nemendur sína í læsi, raungreinum og stærðfræði. 

Grípa til aðgerða vegna PISA

PISA 2022 | 10. júlí 2024

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

Garðabær stefnir að því að setja upp aðgerðaáætlun til að styrkja nemendur sína í læsi, raungreinum og stærðfræði. 

Garðabær stefnir að því að setja upp aðgerðaáætlun til að styrkja nemendur sína í læsi, raungreinum og stærðfræði. 

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir aðkallandi að grípa til aðgerða en gagnrýnir að sveitarfélög fái ekki betri upplýsingar um niðurstöður nemenda í PISA-könnuninni.

„Okkur þætti sómi að því að það yrði lagað,“ segir Almar, en kveðst vita fyrir víst að niðurstöður í læsi séu góðar í Garðabæ.

Því taki sveitarfélagið niðurstöðurnar vissulega alvarlega en sjái einhverjar vísbendingar og gögn sem sýni að börnin í Garðabæ standi sig töluvert betur en landið í heild.

Áskoranir í umhverfi barnanna

Jafnframt nýti þau frelsið sem grunnskólarnir í bænum hafa til að fara ólíkar leiðir í læsiskennslu.

„Okkur þykir það mikilvægt og við sjáum að það skiptir máli. Þannig að við viljum gjarnan halda áfram að fara þá leið að fá fagfólkið í skólanum til að útfæra leiðina. Pólitíkin á ekki að gera það þó hún eigi að styðja við það,“ segir Almar.

„Við erum ánægð með að þar eigum við nokkur frábær, ólík dæmi um það hvernig skólarnir eru að mæta læsiskennslunni. Það hafa verið ákveðnar áskoranir í umhverfi barnanna sem við þekkjum öll svo góðar niðurstöður í lesfimiprófum er ekki nóg. Við þurfum að fara lengra en það.“

Í Garðabæ eru átta starfandi grunnskólar.
Í Garðabæ eru átta starfandi grunnskólar. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjalla um stöðuna í ágúst

Spurður að því hvort fyrirhugaðar séu aðgerðir til að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar segir Almar að á vettvangi skólanefndar grunnskóla Garðabæjar verði umræðan í ágúst helguð einmitt þessu, þ.e. hver staðan sé varðandi læsi, raungreinar og stærðfræðigetu og fleira í þeim dúr sem mælt er í könnuninni.

„Við stefnum svo að því að setja upp aðgerðaplan til að styrkja okkur í þessu,“ segir hann og nefnir í því sambandi að til sé Þróunarsjóður grunnskóla sem orðinn er 10 ára gamall, „sem við getum nýtt ennþá betur til að virkja kraftinn í starfinu varðandi læsi og raungreinar“.

Annars vegar verði því rýnt í þau gögn sem bærinn á varðandi árangur barnanna og hins vegar að setja upp einhverjar aðgerðir til þess að styrkja stöðuna enn frekar.

Þarf að grípa til aðgerða í raungreinum

Varðandi raungreinarnar telur Almar mjög aðkallandi að grípa til aðgerða því þar séu þau með verri mælingar.

Því segir hann að annað hvort þurfi bærinn sjálfur að byggja upp einhverja mælikvarða varðandi stöðu barnanna með samræmdum hætti eða gera það í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþróunar, sem kom í stað Menntamálastofnunar.

Hann segir að eitthvað þurfi að gera á þessu sviði og ef það taki einhvern tíma hjá Miðstöðinni þá verði að skoða leiðir til þess að meta þetta sjálf hjá bænum.

Loks segir Almar að bærinn þurfi einnig að horfa til þess að það sé orðið þyngra að fá fagfólk til starfa í ákveðnar greinar innan raungreinanna.

Framboð af menntuðum kennurum á þessu sviði virðist vera minna eða að faglærðir kennarar kjósi að starfa annars staðar en í skólakerfinu, að hans sögn.

mbl.is