„Það er ekkert að drengjunum“

PISA 2022 | 10. júlí 2024

„Það er ekkert að drengjunum“

Enginn sveitarstjórnarmaður getur setið hjá á sama tíma og staða drengja í menntakerfinu fer versnandi.

„Það er ekkert að drengjunum“

PISA 2022 | 10. júlí 2024

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Enginn sveitarstjórnarmaður getur setið hjá á sama tíma og staða drengja í menntakerfinu fer versnandi.

Enginn sveitarstjórnarmaður getur setið hjá á sama tíma og staða drengja í menntakerfinu fer versnandi.

Þetta segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, í samtali við mbl.is.

Í Vestmannaeyjum hefur verkefnið Kveikjum neistann verið í gangi í þrjú ár og lofa niðurstöður góðu.

Í vetur hafa þrír árgangar fylgt verkefninu og hafa þeir allir náð markmiðum. Ef horft er til rannsóknarhópsins sem nú er í 3. bekk þá teljast 91% nemenda í 3. bekk læsir samkvæmt niðurstöðum mælitækisins LÆS III.

Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir að sveitarstjórnarmenn geti ekki setið hjá.
Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir að sveitarstjórnarmenn geti ekki setið hjá. Ljósmynd/Colourbox

Allir þurfi að gera eitthvað

„Mér finnst að allir þurfi að gera eitthvað. Spurning hvort að það sé Kveikjum neistann sem fólk vill stíga inn í, af því við erum með reynslu af því. En það getur enginn sveitarstjórnarmaður setið hjá núna. Við erum búin að vita af þessu í mörg ár, við erum ekki að takast á við þetta og þetta er okkar ábyrgð,“ segir Íris spurð að því hvort hún hvetji önnur sveitarfélög til að gera það sama og gert hefur verið í Vestmannaeyjum.

Íris segir að best væri ef að öll sveitarfélög gætu gert þetta samstíga en það virðist ganga of hægt.

Ásdís­ Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóra Kópa­vogs­bæj­ar, greindi frá því á mánudag að hún ætl­ar að bregðast við vand­an­um og axla ábyrgð. Í mars var greint frá því að Linda­skóli muni inn­leiða verk­efnið Kveikj­um neist­ann í 1. og 2. bekk skól­ans á næsta ári.

Skiptir máli að hafa skólasamfélagið með

Hvað þurfti til hjá ykkur í Vestmannaeyjum til að ná í gegn breytingum í kerfinu?

„Ástæða þess að við förum af stað er bara staðan. Ég er grunnskólakennari og þekki kerfið þeim megin frá. Við vorum ekki að ná árangri, það voru ekki tæki og tól í kerfinu til að ná árangri og til þess að börnin gætu nýtt sín tækifæri,“ segir hún.

Hún nefnir að Her­mund­ur Sig­munds­son, pró­fess­or við Há­skóla Íslands og Norska tækni- og vís­inda­há­skól­ann, og for­svarsmaður rann­sókn­ar­verk­efn­is­ins Kveikj­um neist­ann, hafi komið að tali við hana og vakið athygli hennar á verkefninu á sínum tíma.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og HÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Til þess að geta farið af stað þarftu auðvitað að hafa skólasamfélagið með þér. Eitt er að pólitíkin taki ákvörðun um að hún vilji gera breytingar, við stýrum auðvitað ákveðnum ramma og fjármagni og svoleiðis, en auðvitað er faglegi þátturinn á hendi skólanna.

Þannig það var samtal við skólann hér, kennara og foreldra sem gekk ótrúlega vel. Saman er tekin ákvörðun um að taka þetta skref og gera þessar breytingar. Fara í þetta þróunar- og rannsóknarverkefni sem er einstakt á Íslandi, öflugasta verkefni sem er í gangi í dag í þessa veru,“ segir hún.

Mælingar og eftirfylgni skipta miklu máli

Athygli vekur að ekki er munur á læsi stúlkna og drengja í verkefninu í Eyjum. Íris segir skipta miklu máli að mæla árangur barnanna og tryggja eftirfylgni.

„Eftirfylgni er það sem hefur verið erfitt að sinna í skólakerfinu og þá nærðu ekki árangri. Ef þú getur ekki fylgt eftir því sem þú mælir, hvort sem þú gerir það með stöðluðum prófum eða hverju sem er, ef þú sérð að það vantar eitthvað upp á og þú getur ekki fylgt því eftir, þá mun auðvitað ekkert breytast,“ segir hún.

Staða drengja kerfisbundið vandamál

Hún ítrekar að til þess að ráðast í breytingar þá þurfi að eiga sér samtal við skólasamfélagið en það sé samt hlutverk bæjarfulltrúa að fara af stað.

„Ég hef alltaf haldið því fram að það sé ekkert í skólakerfinu sem heitir „vandi drengja“. Þetta er kerfisvandi, það er ekkert að drengjunum og hefur aldrei verið. Við erum bara ekki að mæta þeim,“ segir Íris og bætir við:

„Það er það sem við erum að gera hér. Við erum að mæta einstaklingunum, hvort sem það eru stúlkur eða drengir, þar sem þau eru stödd og fylgja þeim eftir.“

mbl.is