Taldi hundruð kvenna trú um óléttu

Sumar kvennanna greindi frá því að þær væru búnar að …
Sumar kvennanna greindi frá því að þær væru búnar að líta út fyrir að vera óléttar í 12-16 mánuði. Læknir lögreglu sem hefur rannsakað 47 kvennanna segir að þeim búi hætta af langtíma aukaverkunum af völdum meðferðarinnar. Kort/Google

Lögregla í Gíneu segist hafa handtekið andalækni sem taldi hundruð kvenna trú um að þær væru óléttar. Andalæknirinn N'na Fanta Camara gaf konum, sem ekki hafði tekist að verða óléttar, mixtúru úr laufum og jurtum sem lét magann á þeim blása út svo þær litu út fyrir að vera óléttar.

Konurnar greiddu Camara andvirði 3.400 kr. fyrir þjónustu sína, en meðaltekjur á mánuði í Gíneu eru tæpar 5.000 krónur.

BBC segir lögregluna telja Camara hafa hagnast um þúsundir dollara á mánuði. Sjálf segist hún hins vegar eingöngu hafa verið að reyna að hjálpa.

Rúmlega 200 konur söfnuðust saman framan við lögreglustöðina í Conakry, höfuðborg Gíneu í gær til að mótmæla. Talið er að rúmlega 700 konur á aldinum 17-45 ára séu fórnarlömb „óléttulækninga“ Camara.

Mikill fjöldi íbúa Gíneu og fjölda annarra Afríkuríkja reiðir sig á andalækna til að finna lausn á vandamálum sínum, en að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar nýta um 80% Afríkubúa sér þjónustu andalækna og græðara.

„Nú er komið ár frá því að ég fór fyrst að hitta þessa konu,“ hefur BBC eftir Alhassan Sillah, sem var í hópi mótmælendanna fyrir utan lögreglustöðina.

„Í fyrstu heimsókninni gaf hún mér lyf úr laufum og kryddjurtum sem lét mig æla. Hún fullvissaði mig um að þetta væri gott fyrir mig. Svo þegar maður heldur áfram að taka lyfin þá fer maginn að stækka.“ Sillah segir að þegar hún hafi heimsótt hana aftur þá hafi Camara snert magann á sér og lýst því yfir að hún væri ólétt.

BBC hefur eftir konunum að Camara hafi því næst sagt þeim að fara ekki til læknis og að þegar hún hefði lýst því yfir að þær væru óléttar þá ættu þær að færa henni kjúklinga og efnisstranga í þakklætisskyni.

Sumar kvennanna greindi frá því að þær væru búnar að líta út fyrir að vera óléttar í 12-16 mánuði. Læknir lögreglu sem hefur rannsakað 47 kvennanna segir að þeim búi hætta af langtíma aukaverkunum af völdum meðferðarinnar.

Camara fullyrðir hins vegar að hún hafi ekki gert neitt rangt.

„Ég lagði mikið á mig til að hjálpa [konunum] að láta drauma sína rætast, en restin er í höndum Guðs,“ sagði hún við fréttamenn í Conakry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert