Spurningum Muellers til Trump lekið

Robert Mueller og Donald Trump. Meirihluti spurninganna 50 snýr að …
Robert Mueller og Donald Trump. Meirihluti spurninganna 50 snýr að hindrun réttvísinnar. AFP

Spurningunum sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, vill leggja fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur verið lekið til New York Times. Hefur dagblaðið nú undir höndum lista með tæplega 50 spurningum sem Mueller er sagður vilja leggja fyrir Trump. Er rúmur helmingur spurninganna sagður snúa að hindrun réttvísinnar.

Meðal þess sem Mueller er sagður vilja spyrja Trump um eru tengsl Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra hans, og rússneskra ráðamanna. „Var þér kunnugt um að starfsmenn framboðs þíns, m.a. Paul Manafort, leituðu til Rússlands eftir aðstoð við kosningabaráttuna?“ hljómar ein spurninganna.

Benjamin Wittes, hjá Brookings Institution hugveitunni í Washington, segir spurninguna mjög áhugaverða þar sem hún bendi til þess að Mueller hafi sannanir fyrir tengslum sem ekki hafi enn verið gerð opinber.

Trump ekki bara vitni

Mueller sendi lögfræðingum Trumps nýlega 10 blaðsíðna lista með spurningum og þykja þær veita skýra sýn inn í þankagang Muellers. Enn fremur þykja þær benda til þess að saksóknarinn líti ekki bara til forsetans sem vitnis í rannsókninni. Ekki liggur enn hins vegar enn fyrir hvort að Mueller fái að yfirheyra Trump.

Einn flokkur spurninga snýr að meintum samskiptum framboðs Trump og ráðamanna í Moskvu, m.a. fundi Donald Trumps yngri með rússneskum lögfræðingi sem kvaðst hafa undir höndum upplýsingar sem gætu skaðað Hillary Clinton mótframbjóðanda Trump.

Þá vill saksóknarinn einnig vita hvort að Trump hafi vitað af tölvuþjófnaði Rússa og notkun á samfélagsmiðlum út frá gögnum Cambridge Analytica.

Spyr forsetann út í Twitter staðhæfingar sínar

New York Times segir Mueller þá spyrja hvort að forsetanum hafi verið kunnugt um samskipti Roger Stone, náins ráðgjafa Trumps, og samstarfsmanna hans við Julian Assange og Wikileaks, sem og tilraunir til að koma á samskiptum við ráðamenn í Rússlandi eftir duldum leiðum.

Mótsagnakenndar fullyrðingar Trump og staðhæfingar sem hann hefur látið falla á Twitter eru sömuleiðis meðal þess sem Mueller vill spyrja hann út í.

Orð forsetans, í kjölfar þess að hann rak James Comey fyrrverandi forstjóra FBI úr starfi í fyrra, um að Comey skyldi vona að ekki væru til upptökur af fundi þeirra og staða Muellers sjálfs virðast einnig vera honum hugleikinn, en Trump hefur ítrekað gefið í skyn að hann íhugi að reka Mueller.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert