Búist við fjölmennum mótmælum í dag

AFP

Búist er við því að tugþúsundir muni taka þátt í mótmælum víða um Bandaríkin í dag þar sem harðlínustefnu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í innflytjendamálum er mótmælt.

Yfir 630 mótmælafundir hafa verið skipulagðir, en þess verður krafist að fjölskyldur sem hafa verið sundraðar við komuna til landsins verði sameinaðar á ný. Þrátt fyrir að Trump hafi látið undan þrýstingi og fyrirskipað að hætta eigi að aðskilja börn frá foreldrum sínum með þessum hætti, hafa um 2.000 börn enn ekki fengið að fara aftur til foreldranna. BBC greinir frá.

AFP

Gagnrýnendur segja að forsetinn hafi í raun ekki sagt neitt um það hvað eigi að gera við börnin sem aðskilin voru frá foreldrum sínum á tímabilinu 5. maí til 9. júní, eða frá því „Zero tolerance“ (Ekkert umburðarlyndi) stefna forsetans tók gildi og þar til hann fyrirskipaði að ekki ætti að sundra fjölskyldum. 

AFP

Stefnan felur meðal annars í sér að þeim sem koma ólöglega yfir landamærin frá Mexíkó til Bandaríkjanna sé ekki sýnt neitt umburðarlyndi. Allir sem geri slíkt eigi yfir höfði sér ákæru. Börn allra þessar einstaklinga voru tekin af þeim og þau sett umsjá bandarískra yfirvalda á áðurnefndu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert