Tamimi segir baráttuna halda áfram

Veggmynd af Ahed Tamimi á múrnum í Bethlehem. Myndin er …
Veggmynd af Ahed Tamimi á múrnum í Bethlehem. Myndin er verk ítalsks götulistamanns sem var handtekinn fyrir uppátækið. AFP

Palestínska unglingsstúlkan Ahed Tamimi, sem var dæmd til átta mánaða fangelsisvistar fyrir að löðrunga ísraelskan hermann, var í dag látin laus úr fangelsi. Tamimi sagði við það tækifæri að baráttan gegn hernámi Ísraela á Vesturbakkanum haldi áfram, að því er Reuters greinir frá.

Tamimi, sem er 17 ára, var tekin í hetjutölu hjá Palestínumönnum eftir atvikið. Það átti sér stað í desember í fyrra framan við heimili hennar í Nabi Saleh, þorpi sem árum saman hefur barist gegn landtökubyggðum Ísraela og hefur því ítrekað komið til átaka við Ísraelsher og landnema á svæðinu.

Ahed Tamimi var í dag látin laus eftir átta mánaða …
Ahed Tamimi var í dag látin laus eftir átta mánaða fangelsisvist. AFP

Móðir Tamimi deildi atvikinu á Facebook, en ísraelsk stjórnvöld telja atvikið vera sviðsetta ögrun.

Tamimi, þá sex­tán ára, vakti al­heims­at­hygli, er mynd­bandið var birt í des­em­ber og sögðu mannréttindasamtökin Amnesty International sakfellingu hennar ganga gegn alþjóðalögum. Ekki megi fangelsa ungmenni nema sem lokaúrræði og þá aðeins í skemmsta mögulega tíma.

Hún átti yfir höfði sér 12 ákærur, m.a. fyrir líkamsárás. Í mars á þessu ári lýsti hún sig hins vegar seka gegn því að fá skemmri dóm. Hún var þá dæmd í átta mánaða fangelsi og var tíminn reiknaður frá handtöku hennar í desember.

„Frá heimili þessa píslarvottar segi ég að andstaðan heldur áfram þar til landnemabyggðirnar eru fjarlægðar,“ sagði Tamimi við hóp fólks sem safnast hafði saman við heimili hennar. „Allir kvenfangarnir í fangelsinu er sterkir og ég þakka öllum sem stóðu með mér í gegnum fangavistina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert