Fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu handtekinn

AFP

Najib Razak, fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, var í dag handtekinn og verður hann ákærður fyrir fjármálamisferli. Er hann sakaður um að hafa dregið sér 628 milljónir dollara úr fjárfestingasjóði í eigu ríkisins og flutt yfir á sinn einkareikning. AFP-fréttastofan greinir frá.

Ásakanir um að Razak hefði dregið að sér fé og væri flæktur í umfangsmikið spillingarmál átti hvað stærstan þátt í óvæntum kosningaósigri hans í vor. Eftirmaður hans Mahathir Mohamad, opnaði aftur rannsókn á meintum fjársvikum Razak, eftir að fyrri ríkisstjórn hafði látið hana niður falla.

Razak var einnig handtekinn í júlí síðastliðnum og ákærður fyrir að draga sér fé úr öðrum opinberum sjóði, en í maí síðastliðnum lagði lögreglan hald á rúmlega 400 handtöskur og tæplega 30 milljónir dollara við húsleit í lúxusíbúðum forsætisráðherrans fyrrverandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert