„Við erum að renna hratt út á tíma“

Mannkynið hefur þurrkað út 60% villtra dýra frá árinu 1970 samkvæmt nýrri skýrslu sem dýraverndarsamtökin World Wildlife Fund (WWF) hefur sent frá sér. Sérfræðingar vara við hættunni á útrýmingu viltra dýra sem ógni siðmenningunni.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að 59 vísindamenn um allan heim hafi komið að gerð skýrslunnar. Þar segi að vaxandi neysla matar og nýting annarra náttúruauðlinda sé að eyða lífríki sem tekið hafi milljarða ára að þróast og sem samfélög manna séu háð þegar komi að hreinu lofti, vatni og öðru.

„Við fljótum að feigðarósi,“ er haft eftir Mike Barrett, framkvæmdastjóra hjá WWF. Ef mannkyninu fækkaði um 60% væri það á við að ekkert mannfólk byggi í Norður- og Suður-Ameríku, Afríku, Evrópu, Kína og Eyjaálfu segir hann ennfremur. „Þetta snýst um miklu meira en bara það að glata undrum náttúrunnar, eins mikilvægt og það er.“

Náttúran sé ekki bara eitthvað sem sé fallegt, hún sé nauðsynlegt til þess að líf þrífist. „Við erum að renna hratt út á tíma,“ segir Johan Rockström prófessor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert