Bifreið ekið á biðstöð

Ljósmynd/Wikipedia.org

Bifreið var ekið inn á gangstétt í borginni Sichuan í suðvesturhluta Kína í morgun með þeim afleiðingum að sjö manns létu lífið og fjórir aðrir slösuðust. Einungis nokkrir dagar eru frá því að bifreið var viljandi ekið á skólabörn í norðausturhluta landsins.

Ökumaðurinn var handtekinn en verið er að rannsaka tildrög málsins samkvæmt frétt AFP. Hinir slösuðu voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Haft er eftir kínverskum miðlum að bifreiðinni hafi verið ekið inn á gangstéttina og endað á strætisvagnabiðstöð.

Fyrir fimm dögum var bifreið ekið með vilja á skólabörn sem voru á leið yfir gangstétt í borginni Huludao með þeim afleiðingum að fimm þeirra létust og 19 slösuðust. Ökumaðurinn, 29 ára karlmaður, var í sjálfsvígshugleiðingum að sögn lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert