Breytingar á byssulöggjöf samþykktar

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær frumvarp um breytingar á byssulöggjöf …
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær frumvarp um breytingar á byssulöggjöf sem herða á eftirliti með kaupendum skotvopna. Ólíklegt er þó að frumvarpið verði að lögum þar sem repúblikanar eru með meirihluta í öldungadeildinni. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær frumvarp um breytingar á byssulöggjöf. Breytingarnar felast í því að enginn fái að kaupa byssu án þess að bakgrunnur viðkomandi í gagnagrunnum alríkisstofnana sé skoðaður.

Frumvarpið er það umfangsmesta sem hefur komist í gegnum fulltrúaþingið síðastliðin 20 ár þegar kemur að byssulöggjöf, en það var samþykkt með 240 atkvæðum gegn 190. Frumvarpið kemst þó að öllum líkindum ekki lengra þar sem repúblikanar hafa meirihluta í öldungadeildinni, auk þess sem Donald Trump Bandaríkjaforseti þarf að undirrita frumvarpið svo það verði að lögum, en líklegt er að hann muni beita neitunarvaldi, komist frumvarpið alla leið á hans borð.

Í bréfi sem skrifstofa forsetans sendi til þingsins segir að forsetinn muni beita neitunarvaldi þar sem frumvarpið gæti komið í veg fyrir að fólk gæti fengið skotvopn lánuð í sjálfsvörn sem og að breytingarnar meina nágranna að geyma eða hafa eftirlit með skotvopnum nágranna síns á meðan hann er að heiman.

Gagnrýnendur frumvarpsins, þar á meðal margir þingmenn Repúblikanaflokksins, fullyrða að breytingarnar, væru þær í gildi nú, hefðu ekki komið í veg fyrir nýlegar skotárásir, þar á meðal skotárásina í framhaldsskóla í Parkland í Flórída í fyrra þar sem 17 létu lífið.

Frumvarpið sem samþykkt var í gær er eitt tveggja frumvarpa um breytingar á byssulöggjöf sem demókratar ætla að leggja fyrir þingið í vikunni. Í næsta frumvarpi er það lagt til að frestur sem veittur er til að skoða bakgrunnsupplýsingar verði lengdur úr þremur dögum í tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert