Notre Dame í ljósum logum

Hér sést þegar turnspíra kirkjunnar hrynur.
Hér sést þegar turnspíra kirkjunnar hrynur. AFP

Eldur kviknaði í Notre Dame-kirkjunni í París síðdegs í dag. BBC segir upptök eldsins ekki vera ljós, en franska slökkviliðið telur eldinn þó mögulega hafa kviknað út frá viðgerðum sem nú er unnið að á kirkjunni. 

BBC hef­ur eft­ir tals­manni kirkj­unn­ar að öll bygg­ing­in sé að brenna. „Það verður ekk­ert eft­ir,“ sagði hann. 

Fjöldi mynda hefur þegar birst á samfélagsmiðlum sem sýna eldtungur og þykk reykjarský leggja upp úr þaki kirkjunnar sem er 850 ára gömul og ein sögufrægasta kirkja Evrópu og heimsótt af milljónum manna árlega. 

Slökkviliðsbílar hafa sést þjóta í gegnum borgina í átt að Ile de la Cite þar sem Notre Dame stendur. Þá hefur lögreglan í París hvatt íbúa borgarinnar á Twitter til að forðast svæðið til að auðvelda megi aðgengi slökkviliðs og hjálparsveita. 

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, sagði á Twitter að um „hræðilegan eld“ væri að ræða.

„Slökkvilið Parísar er að reyna að ná stjórn á logunum,“ skrifaði hún og bað íbúa að virða það svæði sem nú er búið að girða af umhverfis kirkjuna, en að sögn BBC er þegar búið að rýma svæðið næst kirkjunni.

BBC greindi frá því rétt fyrir sex í kvöld að stærsta turnspíra kirkjunnar væri hrunin.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur þá tilkynnt að hann hafi frestað fyrirhugaðri ræðu sinni um tillögur til úrbóta í kjölfar mótmæla sem kennd hafa verið við gul vesti og staðið hafa yfir í landinu í fimm mánuði.

Í fyrra setti kaþólski söfnuðurinn í Frakklandi á fót söfnun fyrir viðgerðum á kirkjunni, sem var í mikilli viðhaldsþörf.

Greint var frá því á sjöundatímanum að embætti saksóknara í París hefði hafið rannsókn á upptökum brunans.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Mikill eldur logar nú í þaki kirkjunnar.
Mikill eldur logar nú í þaki kirkjunnar. AFP
Reykur og eldtungur úr þaki þessarar 850 ára gotnesku kirkju …
Reykur og eldtungur úr þaki þessarar 850 ára gotnesku kirkju sást víða að. AFP
Notre Dame-kirkjan í París. Mynd úr safni.
Notre Dame-kirkjan í París. Mynd úr safni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert