Attenborough styður skólaverkföllin

David Attenborough segir æskuna hafa fullan rétt til að vera …
David Attenborough segir æskuna hafa fullan rétt til að vera reið í garð eldri kynslóða fyrir að hafa gert lítið til að bregðast við loftslagsvandanum. AFP

Reiði þeirra nemenda sem taka þátt í skólaverkföllum fyrir lofslagið er svo „sannarlega réttlætanleg“, segir sjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, sir David Attenborough. Eldri kynslóðir hafi unnið jörðinni mikinn skaða og þeir sem hafni þeirri mótmælabylgju námsmanna sem nú fer um heiminn séu einfaldlega bölsýnismenn.

“[Unga fólkið] skilur einfaldleika vísindauppgötvana og hvernig við reiðum okkur á náttúruna,“ hefur Guardian eftir Attenborough. „Mín eigin kynslóð er ekki gott dæmi um þennan skilning. Við höfum gert hræðilega hluti.“

Sagði Attenborough í hlaðvarpsviðtali við  Christiana Figueres fyrrverandi umhverfisstjóra Sameinuðu þjóðanna, lofslagsmótmæli unga fólksins vera virkilega hvetjandi. „Þetta er ein helsta ástæða þess að ég tel um framför að ræða. Ef framfarir eiga sér ekki stað með æskunni, þá er þetta búið.“

Talið er að skólaverkföll verði haldin í 485 borgum og bæjum í 72 löndum í dag, samkvæmt vefsíðunni  Fridays for Future, en 36 vikur eru nú frá því að upphafsmaður skólaverkfallanna, hin sænska Greta Thunberg mótmælti fyrst fyrir utan sænska þinghúsið á föstudegi. Thunberg  sagði breska þinginu í vikunni að þingmenn hefðu logið að fólki og veitt því falska von.

Belgískir námsmenn mótmæla hér aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum fyrr í …
Belgískir námsmenn mótmæla hér aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum fyrr í mánuðinum. AFP

Eigum að hlusta á unga fólkið

„Reiði þeirra á svo sannarlega rétt á sér. Það leikur enginn vafi á því,“ sagði Attenborough. „Einhverjir bölsýnismenn munu reyna að hunsa [þá sem taka þátt í skólaverkföllum] og segja að þá skorti skilning á heiminum og hvernig hann virkar.  Unga fólkið kann að skorta reynsluna, en það hefur skýra sýn og sér kannski skýrar en við hin sem erum búin að vera hér lengur. Við sem eldri erum ættum að hlusta á hvað það er að segja.“

Atten­borough gaf nýlega út harðorðustu yf­ir­lýs­ingu sína til þessa um þá ógn sem heim­in­um staf­ar af lofts­lags­breyt­ing­um. Í þættinum Clima­te Change – The Facts, sem um þrjár milljónir manna horfðu á er hann var sýndur á BBC, út­list­ar Atten­borough um­fang þeirra erfiðleika­tíma sem jörðin standi nú frammi fyr­ir.

Seg­ir hann jarðarbúa standa frammi fyr­ir „óaft­ur­kræf­um skaða á nátt­úr­unni og sam­fé­lags­legu hruni“. Enn sé þó von, svo framar­lega sem næsta ára­tug verði gripið til rót­tækra aðgerða til að tak­marka áhrif­in.

 „Þetta kann að hljóma skelfi­lega, en það eru vís­inda­leg­ar sann­an­ir fyr­ir því að ef við gríp­um ekki til rót­tækra aðgerða inn­an næstu tíu ára þá kunn­um við að standa frammi fyr­ir óaft­ur­kræf­um skaða á líf­rík­inu og hruni mann­legs sam­fé­lags,“ sagði Attenborough.

Sagði Attenborough við Figueres að aðgerðir til að stöðva loftslagsbreytingar og eyðingu náttúrunnar vera nauðsynlegar. „Við eigum einskis annars kost ef við viljum lifa af. Við höfum siðferðlega skyldu og það væri okkur til ævarandi skammar að viðurkenna það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert