Níu látnir í flugslysi í Svíþjóð

Lesandi vefmiðilsins Västerbottens Folkblad sendi þessa mynd af slysstað, björgunarsveitir …
Lesandi vefmiðilsins Västerbottens Folkblad sendi þessa mynd af slysstað, björgunarsveitir áttu í mestu vandræðum með að komast að flakinu og varð þegar ljóst við aðkomu þeirra að engum yrði bjargað. Ljósmynd/Aðsend

Allir sem um borð voru í lítilli flugvél, sem flutti fallhlífarstökkvara í stökk við eyjuna Storsandskär utan við í Umeå í Austur-Svíþjóð, eru látnir eftir að flugvélin skall til jarðar við eyjuna laust eftir klukkan 14 í dag að Skandinavíutíma.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fallhlífarstökkvara í Svíþjóð, Svenska Fallskärmsförbundet (SFF), sem norska dagblaðið VG birti rétt í þessu létust átta fallhlífarstökkvarar og flugmaður vélarinnar í slysinu. 

Flugvélin hrapaði við eyjuna Storsandskär utan við í Umeå í …
Flugvélin hrapaði við eyjuna Storsandskär utan við í Umeå í Austur-Svíþjóð upp úr klukkan 14 að skandinavískum tíma í dag og létust allir níu sem voru um borð, átta fallhlífarstökkvarar og flugmaður. Skjáskot/Google Maps

Vélin hrapaði í fjalllendi þar sem ekki var auðvelt að komast að henni og segir Conny Qwarforth, björgunarstjóri sænsku siglingamálastofnunarinnar Sjöfartsverket, í samtali við norska og sænska fjölmiðla að björgunarsveitir hafi verið lengi á leið að flakinu en ljóst hafi verið við aðkomu að ekki yrði þar nokkur lífsbjörg.

Uppfært klukkan 16:00 að íslenskum tíma:

„Nú veit ég ekki hve mikið þú hefur fengið að heyra, við vorum bara að heyra af þessu fyrir skammri stundu,“ segir Anna Oscarson, fjölmiðlafulltrúi Svenska Fallskärmsförbundet, samtaka sænskra fallhlífarstökkvara, í samtali við mbl.is. „Ég get ekkert staðfest um aðstæður á slysstað, mér skilst að vélin hafi farið niður við Storsandskär, ég þekki ekki aðstæður þar því miður.“

Þekkir Oscarson til stökkvaranna sem létust?

„Nei, ég veit ekki hverjir þetta voru enn þá, við höfum bara fengið grunnupplýsingar frá lögreglunni, þetta er hryllilega sorglegt og klárlega mesta blóðtaka úr hópi sænskra fallhlífarstökkvara í einu og sama slysinu fram að þessu,“ segir Oscarson við mbl.is.

Per Olov Humla, formaður samtakanna, ræddi einnig stuttlega við mbl.is og sagði atburðinn skelfilegan. Hann varð svo að kveðja þar sem hann var sjálfur á leið upp í flugvél og í fallhlífarstökk.

Aftonbladet

VG

TV2

Västerbottens Folkblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert