Thunberg nálgast New York

12 dagar eru síðan sænski aðgerasinninn Greta Thunberg lagði af …
12 dagar eru síðan sænski aðgerasinninn Greta Thunberg lagði af stað yfir Atlantshafið á vistvænni skútu. AFP

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg er væntanleg til hafnar í New York á morgun. Tæpar tvær vikur eru síðan hún lagði af stað með skútu frá Plymouth á Englandi yfir Atlantshafið til að taka þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York. 

Thunberg hefur veitt almenningi innsýn í siglinguna með daglegum uppfærslum á Twitter og samkvæmt nýjustu færslunni er skútan væntanleg til hafnar á morgun, tveimur dögum á undan áætlun, sökum mikils meðvinds. 

Sem kunn­ugt er flýg­ur Thun­berg ekki af lofts­lags­ástæðum og því hef­ur hún ekki enn farið til Vest­ur­heims að bera út boðskap sinn. Thunberg mun einnig hitta bandarísk ungmenni og taka þátt í lofts­lags­mót­mæl­um áður en hún tek­ur þátt í ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna 23. sept­em­ber.

Áhöfn 18 metra löngu keppn­is­skút­unn­ar Malizia II bauð Thunberg og föður henn­ar að fljóta með yfir hafið. Skipstjórar skútunnar er Pierre Casiraghi, sonur Karólínu prinsessu af Mónakó, og siglingakappinn Boris Hermann sem hefur siglt umhverfis heiminn á skútunni. Malizia II er knú­in sólarraf­hlöðum og sér­stakri túr­bínu sem fram­leiðir raf­magn með vist­væn­um hætti.



20. ágúst var ár liðið síðan Thunberg ákvað að hætta að mæta í skólann á föstudögum og hefja loftslagsverkfall fyrir utan sænska þinghúsið. Á þessu eina ári hefur mikið vatn runnið til sjávar og mörg ungmenni hafa tekið sér Thunberg til fyrirmyndar og mótmælt á hverjum föstudegi víða um heim, þar á meðal á Íslandi.

Ferð Thunberg yfir Atlantshafið hefur ekki verið laus við gagnrýni, sérstaklega eftir að talsmaður Hermann sagði í samtali við þýska fjölmiðla að fólki yrði flogið til New York til að koma skútunni aftur til Evrópu. Hermann mun sjálfur fljúga frá Bandaríkjunum. 

Sjálf hefur Thunberg sagt að hún viti ekki ennþá hvernig hún ætli að snúa heim til Svíþjóðar að ferðinni lokinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert