Bannað að bera vitni fyrir þingnefndum

Donald Trump Bandaríkjaforseti stendur í ströngu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti stendur í ströngu. AFP

Hvíta húsið kom í dag í veg fyrir að Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjastjórnar gagnvart Evrópusambandinu, bæri vitni fyrir nefndum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í tengslum við rannsókn á samskiptum Donald Trump Bandaríkjaforseta og Volodimír Zelenskí for­seta Úkraínu.

Sondland hafði samþykkt að bera vitni en lögmaður hans segir að honum hafi verið bannað að bera vitni.

Fram kemur í yfirlýsingu frá lögmanninum, Robert Luskin, að utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafi bannað Sondland að koma fyrir nefndina á síðustu stundu.

Trump var fljótur að beina athyglinni að demókrötum, sem fara með meirihluta í fulltrúadeildinni. Forsetinn sagði að það hefði verið ánægjulegt að sjá Sondland á sýndarréttarhöldum demókrata.

Fram kemur í frétt AFP að atburðir morgunsins muni enn frekar magna ágreininginn milli Trump og demókrata á þingi en demókratar áforma að stefna forsetanum til embættismissis ef í ljós kemur að hann hefur brotið lög.

Trump er sakaður um að ahfa þrýst á Zelenskí í símtali í sumar að láta rannsaka bæði Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og mögulegan keppinaut hans um forsetastólinn á næsta ári, og Hunter, son hans, vegna tengsla þess síðarnefnd við úkraínska gasfyrirtækið Burisma. Trump hefur viðurkennt að hafa nefnt málefni feðganna í símtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert