DNB verði rannsakaður, segir Joly

Eva Joly. „Nú er tími fyrir uppgjör og fyrir rannsókn,“ …
Eva Joly. „Nú er tími fyrir uppgjör og fyrir rannsókn,“ segir hún um þátt norska DNB-bankans í Samherjamálinu. mbl.is/Árni Sæberg

Eva Joly, ein lögfræðinganna í lög­fræðiteymi Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra og stjórn­ar­manns Sam­herja­fé­lag­anna í Namib­íu, segir að rannsaka verði norska bankann DNB fyrir þátt hans í viðskiptum Samherja í Namibíu. Um sé að ræða hneyksli af „gríðarlegri stærðargráðu“.

Þetta segir Joly í samtali við norska dagblaðið Aftenposten. „Þetta er sjávarútvegsfyrirtæki, sem átti að koma Namibíumönnum til aðstoðar. Sagan endurtekur sig; alþjóðlegt fyrirtæki nær eignarhaldi á auðlindunum með því að múta heimamönnum. Þetta er alltaf sama sagan,“ er haft eftir Joly í Aftenposten.

Reglurnar ekki nægilega skýrar

Hún segir að það séu sígild viðbrögð þeirra sem flett er ofan af að skella skuldinni á þann sem segir frá, eins og gerðist í tilfelli Jóhannesar. „Við höfum gögn. Um 30.000 skjöl sem eru á Wikileaks. Allir geta skoðað þau þar. Allir geta séð hvernig féð var fært frá Kýpur til Dúbaí og enginn hefur staðfest að umbjóðandi minn (Jóhannes) hafi haft heimild til að yfirfæra 70 milljónir Bandaríkjadollara eins og gert var þarna,“ segir Joly.

Hún er afar gagnrýnin á þátt DNB í málinu. „Að mínu mati er þetta greinilegt merki um það sem við höfum séð í árafjölda; að reglurnar í DNB eru ekki nægilega skýrar. Við sáum það í Panamaskjala-málinu,“ segir Joly.  Þar vísar hún til þess að árið 2016, þegar innihald Panamaskjalanna svokölluðu var gert opinbert, kom í ljós að útibú DNB í Lúxemborg hafði aðstoðað viðskiptavini sína við að stofna 42 fyrirtæki á Seychelles-eyjum á tímabilinu 2006 — '08. Niðurstaða rannsóknar sem gerð var í kjölfarið var að siðareglur DNB hefðu verið brotnar, en ekki hefði verið um lögbrot að ræða. 

Maður millifærir ekki peninga án þess að vita hver viðtakandinn er

Joly segir að rannsaka eigi þátt DNB í Samherjamálinu. „Nú er tími fyrir uppgjör og fyrir rannsókn. Þú ættir að vita á hvern þú millifærir fé. Maður millifærir ekki peninga án þess að vita hver viðtakandinn er. Ef viðtakandinn í Dúbaí er á „gráu svæði“, pólitískt séð, og peningarnir koma frá útibúi í skattaparadís, frá útgerðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi — þá gæti einhver velt því fyrir sér hvers vegna í veröldinni peningarnir eru látnir fara í gegnum DNB. Það þarf að svara þeirri spurningu.“

Even Westerveld, talsmaður DNB-bankans, segir í tölvupósti til Aftenposten að bankinn tilkynni grunsamlegar fjárreiður til lögreglu. Í fyrra hafi bankinn tilkynnt 1.496 slík mál til efnahagsbrotadeildar norsku lögreglunnar. „Við áttum okkur á því að margir velta fyrir sér hvort við gerðum það í þessu tilviki, en okkur er ekki heimilt að gefa það upp samkvæmt lögum,“ segir Westerveld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert