Telur að Trump yrði sakfelldur fyrir kviðdómi

Jerry Nadler, þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður dómsmálanefndar …
Jerry Nadler, þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður dómsmálanefndar deildarinnar. AFP

Formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþingsins, Jerry Nadler, lýsti þeirri skoðun sinni í dag að ef málið gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna meintra afbrota í embætti væri lagt fyrir kviðdóm yrði forsetinn sakfelldur innan þriggja mínútna.

Dómsmálanefndin kemur saman á morgun til þess að hefja vinnu við ákæru á hendur Trump. Haft er eftir Nadler í frétt AFP að sönnunargögnin fyrir því að forsetinn hefði sett eigin hagsmuni framar hagsmunum Bandaríkjanna væru „gegnheil“. Aðspurður hafi hann ekki útilokað að greidd yrðu atkvæði um ákæruna í lok þessarar viku.

Reiknað er með að ákæran verði samþykkt í fulltrúadeildinni þar sem demókratar hafa meirihluta. Komi til þess mun hún í framhaldinu koma til kasta öldungadeildarinnar þar sem Repúblikanaflokkurinn, flokkur Trumps, hefur meirihluta. Meirihluti repúblikana í öldungadeildinni er naumur en talið er að forsetinn hafi þar sigur.

Talsmenn Trumps hafa sagt að ekki standi til af hans hálfu að taka til varna fyrir dómsmálanefndinni en forsetinn hefur sagt fyrirhugaða ákæru hluta af nornaveiðum sem hann hafi þurft að sæta af hálfu pólitískra andstæðinga sinna.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert